hull-gym-weights

Eins og flestir vita er nauðsynlegt að hreyfa sig. Það hjálpar okkur ekki einungis að halda líkamlegri heilsu heldur einni andlegri. Þegar velja á sér hreyfingu getur oft verið erfitt að finna hvað það er sem hentar manni best og oft verður þessi skortur á hentugleika til þess að fólk gefst einfaldlega upp og hreyfir sig ekki neitt. Margir bera einnig fyrir sig tímaskorti, hafa bókstaflega engan tíma til að hreyfa sig. En sérfræðingar halda því fram að ALLIR hafi tíma og getu til að hreyfa sig, svo hver er lykillinn?

Lykillinn er, samkvæmt rannsókn sem unnin var við Iowa State University, að koma hreyfingunni inní rútínuna. Þetta kemur kannski ekki á óvart, en það sem átt er við hér er að með því að gera hreyfingu að vana verður auðveldara og skemmtilegra að koma sér í ræktina/út að hlaupa/út að ganga og svo framvegis.

Hreyfingin sem fólk velur sér skiptir ekki höfuðmáli. Þegar hreyfingin er orðin að vana, t.d. að fara beint í ræktina eftir vinnu, fer hreyfingin að verða ómissandi hluti af deginum. Svipað og að reyna að hætta að naga neglurnar yfir sjónvarpinu, já það eru ekki allir ávanar jafn-jákvæðir og hreyfing.

Til að byrja með þarf fólk kannski að leggja sig fram við að halda sér við efnið, en það tekur vonandi ekki mjög langan tíma. Það hjálpar að stunda líkamsrækt sem viðkomandi þykir skemmtileg, en vaninn leggur langmest á vogarskálarnar.

Svo nú er bara að búa sér til þann ávana að mæta í ræktina.