Mynd: Society for Personality and Social Psychology
Mynd: Society for Personality and Social Psychology

Hvort skiptir þig meira máli, tími eða peningar? Hugsaðu þig vel um áður en þú svarar því svarið gæti haft forspárgildi um hversu hamingjusöm/samur þú ert.

Félagsfræðileg rannsókn unnin við Háskólann við British Columbia sýnir að fólk sem metur tíma ofar peningum er hamingjusamara en fólk sem forgangsraðar peningum fram yfir tíma. Rannsóknin sem birtist í tímaritinu Social Psychological and
Personality Science
tekur til yfir 4600 sjálfboðaliða sem svöruðu spurningalistum þar sem þeir voru beðnir um að taka afstöðu til meðal annars þess hvort tekjur eða vinnutími skipti meira máli eða hvort þeir myndu frekar kjósa að leigja dýra íbúð sem væri nálægt vinnu eða ódýra íbúð fjarri vinnu. Þátttakendur voru fundnir meðal annars í háskólum og á söfnum og leitast var eftir að ná í sem breiðastan hóp af fólki.

Þegar spurningalistarnir voru dregnir saman kom í ljós að fólk sem taldi tíma skipta meira máli en peninga var yfirleitt hamingjusamara en fólk sem fannst skipta mestu máli að eiga stóran sjóð. Þessar niðurstöður voru óháðar tekjuhópum, sem þýðir að þetta gildir ekki eingöngu um fólk sem ekki veit aura sinna tal. Hins vegar var enginn hópur sem gat flokkast við eða undir fátækramörk og líklegt verður að teljast að slíkur hópur myndi forgangsraða peningum fram yfir tíma á öðrum forsendum en þeir sem svöruðu könnuninni í þessari rannsókn.

Það er því kannski skref í átt að hamingjusamara lífi að eyða frekar tíma sínum með fjölskyldunni eða við að stunda áhugamálin sín heldur en að ná inn auka þúsundköllum sem veita manni ekki raunverulega gleði.