fish-oil-dog-food

Lýsi hefur löngum verið notað af Íslendingum sem fæðubótarefni, jafnvel löngu áður en orðið fæðubótarefni varð til. Í lýsi eru nauðsynleg A og D vítamín sem flestir þurfa að taka aukalega inn þar sem erfitt er að fá nægjanlegt D-vítamín úr fæðunni. Að auki er lýsi blanda af omega-3 fitusýrum. Þessar fitusýrur er líka nauðsynlegt að fá inn með fæðu þar sem mannslíkaminn getur ekki nýmyndað þessar fitusýrur. Nýleg rannsókn sýnir að omega-3 hefur áhrif á félagslega hegðun barna og árásagirni þeirra.

Omega-3 fitusýrur koma við sögu meðal annars í taugaboðum og margar rannsóknir benda til að aukin inntaka omega-3 hafi áhrif á geðraskanir, alzheimer´s og minnki líkur á sjúkdómum á borð við krabbamein.

Adrian Raine og samstarfsfólk hans, við The University of Pennsylvania vildu skoða hvort inntaka omega-3 hefði áhrif á andfélagslega hegðun barna sem og árásagirni þeirra. Til að skoða þetta safnaði hópurinn saman 200 börnum á aldrinum 8-16 ára. Helmingur barnanna fékk fiskiolíu og hinn helmingurinn ekki, hvorki börnin né rannsakendurnir vissu hver tilheyrði hvaða hóp. Eftir 6 mánaða fiskiolíu neyslu voru forráðamenn spurð útí hegðunarmynstur barna sinna og breytingar á því. Marktækt fleiri foreldrar sem áttu börn sem fengu fiskiolíu, sögðust upplifa minni andfélagslega hegðun barna sinna og að auki voru þau minna árásagjörn.

Þessi rannsókn gefur einungis vísbendingar um áhrif omega-3 á hegðun barna en þetta rennir vissulega stoðum undir þær upplýsingar sem nú þegar liggja fyrir að omega-3 kemur við sögu í samskiptum taugafrumna og getur haft áhrif á ýmsar geðraskanir, þ.á.m. þunglyndi.

Hér má lesa greinina í heild sinni, en hún var birt í The Journal of Child Psychology and Psychiatry.