Mynd: Thanhnien news
Mynd: Thanhnien news

Lýsi er holl og góð sjávarafurð, virðist vera allra meina bót enda hafa Íslendingar lengi tengt afrek þjóðarinnar við neyslu okkar á olíunni. Það er ekki alveg úr lausu lofti gripið því lýsi inniheldur lífsnauðsynleg og illfáanleg vítamín, þ.e. D og A vítamín og að auki er olían samsett úr mikilvægu fitusýrunum sem kenndar eru við omega-3. Þar sem fitusýrurnar eru okkur nauðsynlegar fyrir eðlilega líkamsstarfsemi og fæðan okkar inniheldur þær ekki í miklu magni er lýsi góð uppspretta fitusýranna.

Hingað til höfum við tengt omega-3 fitusýrur við vinnslu sjávarafurða en nú gætum við farið að fá á markað omega-3 fitusýrur unnar úr skordýrum. Daylan A. Tzompa-Sosa, doktorsnemi við Wageningen University skoðaði innihald olíu sem fellur til þegar prótín er einangrað úr skordýramassa. Hingað til hefur þessari aukaafurð verið hent, en samkvæmt greiningum Tzompa-Sosa gæti sú sóun heyrt sögunni til.

Olíurnar komu af mörgum mismunandi skordýrum og var innihald þeirra að sama skapi mismunandi en í flestum tilfellum var þarna um að ræða verðmætar og nýtanlegar olíur sem bæði væri hægt að nýta til mann- og dýraeldis. Það líður því kannski ekki á löngu áður en við kaupum omega-3 olíu unnar úr skordýrum samhliða engisprettu-prótínstöngum.