DNA seq

Ný rannsókn sýnir að allt að 60% Bandaríkjamanna myndu svara ofangreindri spurningu játandi. Raðgreining vísar í að greina DNA röð í lífveru. Nýjasta raðgreiningatæknin gerir vísindamönnum kleift að raðgreina mjög stór svæði í erfðamenginu með tiltölulega lítilli fyrirhöfn, svona miðað við fyrri aðgerðir að minnsta kosti og jafnvel heilt erfðamengi, það sem kallað er heilraðgreining.

Rannsóknin sem hér er vísað í var birt í Public Health Genomics, 6. mars síðastliðinn og var stjórnað af Beth A. Tarini. Tilviljanakennt úrtak Bandaríkjamanna var spurt útí viðhorf sitt til heilraðgreininga fyrir sjálft sig eða börnin sín. 58,6% sögðust hafa áhuga á að fá heilraðgreiningu á sér og 57,8% foreldra sögðust hafa áhuga á heilraðgreiningu á börnum sínum. Mæður voru líklegri til að hafa áhuga á raðgreiningunni sem og foreldrar sem áttu börn sem glímdu við einhverja heilsubresti.

En hvaða tilgangi þjónar það fyrir einstaklinga að fá raðgreiningu á erfðamengi sínu? Mögulegir ávinningar væru að sjá hvort einhverjir erfðaþættir væru tengdi aukinni áhættu á sjúkdómum. Til þess að slíkar upplýsingar gerðu gagn þyrfti að gera margs konar tölfræði og prófanir á gögnunum og útkoman væri að öllum líkindum hvorki nákvæm né afgerandi. Sannleikurinn er sá að lífstíll og umhverfi hefur í flestum tilfellum miklu meiri áhrif á þróun sjúkdóma en erfðaþættir. Þetta á við um lflesta erfðaþætti sem tengdir hafa verið við sjúkdóma en áhrif þeirra eru ekki sterk. Ráðleggingar sérfræðinga til að sporna við slíkum kvillum væru sennilega að lifa heilsusamlegum lífsstíl.

Það er mikilvægt að fólk taki ábyrgð á eigin heilsu en sérfræðingar eru ekki sammála um hvort erfðaupplýsingar af þessari stærðargráðu hjálpi til við það. Sumir segja jafnvel að ábyrgð einstaklinganna verði of mikil þar sem við ráðum ekki við það hvernig erfðaefni við fæðumst með. Erfðamengi mannsins er meira en 3 milljarðar basar. Þetta þýðir að runan sem kemur útúr raðgreiningunni er meira en 3 milljarðar stafir, það er ansi þykk bók. Það þjónar því kannski ekki miklum tilgangi en gæti þó verið skemmtilegt að vera með DNA-röðina sína í bókahillunni, eða hvað?