USB stick

Rétt upp hönd ef þú hefur tekið USB kubbinn úr tölvunni án þess að smella á „eject device“ og bíða eftir að tölvan gefi þér “ Safe to remove“

Líklegast hafa flestir á einhverjum tímapunkti einmitt sleppt þessu auka skrefi og tekið USB kubbinn beint út meira að segja án þess að tölvan eða kubburinn hljóti nokkurn skaða af. Svo er virkilega nauðsynlegt að hafa þennan möguleika að láta tölvuna vita, er það ekki bara óþarfi?

Á vefsíðunni Quora útskýrir Philip Remaker hvers vegna það getur komið sér vel að segja tölvunni að nú verður USB kubburinn tekinn.

Flestar tölvur líta svo á að það sem er tengt við tölvuna verði þar alltaf, þess vegna ef við erum með minniskubb tengdan við tölvuna þá liggur tölvunni ekki á að koma gögnum af USB kubbnum yfir á harða diskinn. Þegar við færum gögn á milli er ekki víst að tölvan visti gögnin samstundis á harðadiskinn, ef margt annað er að gerast í tölvunni þá bíður hún með að vista ný gögn þangað til tími gefst til, ef svo má segja. Þetta þýðir að þegar USB kubbnum er kippt út er ekki víst að tölvan sé búin að færa gögnin yfir, hún er bara búin að ákveða að gera það á einhverjum tímapunkti. Hins vegar ef tölvan fær viðvörun um að bráðum verði gögnin ekki lengur aðgengileg á kubbnum þá drífur hún í að vista þau.

Þess vegna er nauðsynlegt að láta tölvuna vita að við munum brátt aftengja USB kubbinn. Að sjálfsögðu eru tölvur og stýrikerfi þeirra alltaf að verða öflugri og þessar aðgerðir verða um leið tilgangslausari. Kannski verður sá möguleiki að vara tölvuna við ekki einu sinni til staðar í nánustu framtíð. En fram að því, munar okkur þá nokkuð um þessa hálfu mínútu sem það tekur að vara tölvuna við?