spring_kid

Veikindi eru oft afleiðing utanaðkomandi þátta eins og á augljóslega við um bakteríu- eða veirusýkingar. Aðrir sjúkdómar eins og krabbamein eða sjúkdómar sem leggjast á taugakerfið eru yfirleitt tilkomnir vegna þátta sem við ráðum síður við, en einhverjir utanaðkomandi þættir koma nú samt við sögu. Getur verið að þessir utanaðkomandi þættir séu bundnir árstíðum og því hægt að sjá tengingu milli fæðingardags og veikinda?

Þessari spurningu vildu vísindamenn við Columbia háskóla svara. Hópurinn notaði gagnagrunn heilbirgðisstofnanna í New York til að skoða hvort fylgni væri milli fæðingartíma og áhættu á að þróa með sér sjúkdóma. Gagnagrunnurinn nær utan um heilsufarsgögn yfir 1,7 milljón sjúklinga og er frá árunum 1985-2013.

Af þeim 1688 sjúkdómum sem voru skoðaðar voru 55 sem sýndu fylgni við fæðingarmánuð sjúklinganna. Á heildina litið virtust einstaklingar fæddir í maí eða júlí í minnstri hættu á að verða veikir en mest hættan ef einstaklingur var fæddur í október eða nóvember. Áhættan er svo einnig mismunandi fyrir mismunandi sjúkdóma og má þá nefna að þeir sem eru fæddir í mars og apríl eru í mestri áhættu að hjarta og æðasjúkdóma en þeir sem eru fæddir í október og nóvember eru í mestri hættu á að fá sjúkdóma í öndunarveg eða að eiga í erfiðleikum með að eignast börn.

En þó fylgnin sé til staðar er áhættu aukningin ekki nógu afgerandi til að ráðleggja fólki sem á afmæli í október að vefja sig í bubbluplast eða skipa fólki að eignast bara börn í maí. En ef áhrifin eru ekki afgerandi, hvað er þá að græða á svona rannsóknum? Svarið er að með því að skilgreina svona áhættuþætti verða til betri skilyrði til að skilgreina hvaða umhverfisþættir hafa mest áhrif á þróun þessara tilteknu sjúkdóma. Næstu skref rannsakenda er því að skoða sveiflur í umhverfisþáttum miðað við árstíma og hvort hægt sé að tengja þær við niðurstöðurnar sem birtar voru úr þessari rannsókn í Journal of the American Medical Informatics Association.