cat-eats-steak

Af hverju sýna gæludýrin okkar stundum af sér matvendni? Maður skyldi ætla að át hjá dýrum væri aðallega athöfn hugsuð til að halda lífi, en ekki sem gæðastundum með bragðlaukunum eins og matartíminn er að verða hjá mannfólkinu.

Það er samt ósköp einföld skýring á því hvers vegna dýr eru matvönd. Bragðskynið er eitt af þeim skynfærum sem dýr (og menn reyndar líka) hafa til að meta gæði matarins. Dýr eins og kettir sem eru kjötætur reyna því að forðast rammt bragð, vegna þess að það gefur til kynna að maturinn sé farinn að skemmast. Þess vegna forðast kettirnir ramman mat og finna því bragðið af t.d. lyfjunum sem við reynum að smygla í matardallinn þeirra. Að auki inniheldur dýramatur oft grænmeti sem gefur líka af sér rammt bragð og það líkar dýrunum ekki.

Rannsóknir eins og sú sem birtist í dögunum í BMC Neurosceince gefur góðar vísbendingar um hvernig dýr skynja bragð öðruvísi en menn. Í þessari rannsókn var notast við frumuræktanir á frumum sem eru með braðgviðtaka og viðbrögð frumnanna við hinum ýmsu brögðum mæld. Með þessu móti er hægt að bera saman bragðlauka úr mann og bragðlauka úr til dæmis ketti.

Niðurstöður sem þessar geta komið að góðum notum þegar þróa á nýtt fóður fyrir dýr, en þá er einmitt mikilvægt að fela rammt bragð svo dýrið borði sem mest af því sem fyrir það er borið.