screen-shot-2017-03-04-at-12-17-32

Dýragarðurinn Animal Adventure Park í Bandaríkjunum átti von á því að gíraffinn April myndi fæða kálf á næstunni. Fæðing gíraffakálfsins er stór viðburður í dýragarðinum enda er um að ræða fyrsta gíraffakálfinn sem fæðist þar og var því ákveðið að sýna beint frá fæðingunni á netinu. Viðbrögðin létu ekki á sé standa og hafa hátt í 20 milljónir áhorfa verið á útsendinguna og samsvarar áhorfið um 1036 árum.

Gallinn er sá að síðan útsendingin hófst þann 24. febrúar hefur hreinlega ekki neitt gerst. April er hin rólegasta og ekkert bólar á kálfinum. Eðlilega eru áhorfendur orðnir nokkuð óþolinmóðir og gætu þeir þurft að bíða enn lengur ef marka má orð Jordan Patch, eiganda garðsins. Patch sagði frá því á Facebook live í vikunni að starfsmenn garðsins hafi talið að gíraffarnir April og Oliver hefðu makast um miðjan október 2015, það kann þó að vera að getnaður hafi ekki átt sér stað á þeim tíma. Það er ekki útilokað að getnaðurinn hafi átt sér stað töluvert seinna, líklega 17 eða jafnvel 34 dögum seinna.

Það lítur því út fyrir það að áhorfendur þurfi að bíða eitthvað lengur eftir fæðingu kálfsins. Þeir sem vilja fylgjast með gangi mála geta horft á útsendinguna hér.