Mjólk, skyr, ostur og aðrar mjólkurvörur eru hluti af daglegu lífi stórs hluta Íslendinga. Mjólkurvörur hafa þó ekki alltaf verið á matseðli okkar og hafa vísindamenn velt því fyrir sér hvenær Evrópubúar hófu að leggja mjólk annarra dýra sér til munns.

Rannsókn sem birtist í tímaritinu Nature í lok september varpar ljósi á ráðgátuna og staðfestir að kúamjólk hefur verið gefið börnum í í það minnsta nokkur þúsund ár.

Fornar stútkönnur

Í fornum grafreitum barna í Evrópu er ekki óalgengt að fornleifafræðingar hafi fundið litla keramikbolla sem hafa einkennandi gat á hliðinni. Af formi bollanna hafa fornleifafræðingar komist að þeirri niðurstöður að um sé að ræða forna útgáfu af stútkönnum sem börn nútímans nota gjarnan.

Bollar sem þessir hafa fundist í grafreitum barna víða um heimsálfuna og eru elstu bollar af þessari gerð frá því 5500 fyrir krist. Notkun þeirra virðist síðan hafa aukist frá því seint á bronsöldinni fram á járnöld.

Þrátt fyrir að tilvist þessarra stútkanna hafi lengi verið þekkt hefur ekki verið staðfest nákvæmlega hvað þær innihéldu. Lengi hefur þó leikið grunur um að þær hafi innihaldið mjólk af einhverju tagi.

Þrír bollar varpa ljósi á söguna

Rannsóknahópur sem samanstóð af vísindamönnum sem starfa í Bretlandi og Þýskalandi greindi það efni sem þakti veggi tveggja bolla af þessu tagi. Bollarnir tveir fundust í fornum grafreitum í Altmül dal í Bavaria héraði Þýskalands or eru taldir vera 2500-3000 ára gamlir.

Báðir bollarnir voru um 50 millimetrar að þvermáli og fundust í heilu lagi í grafreitum barna. Það sem einkenndi bollana var að báðir höfðu þeir nokkuð stórt op sem gerði rannsóknarteyminu auðveldara fyrir að skrapa innan úr þeim en mörgum öðrum bollum af svipaðri gerð. Að auki var þriðji bollinn sem fannst brotinn í gröf barns greindur.

Við greiningu á efninu sem var að finna innan á bollunum kom í ljós að hátt hlutfall dýrafitu var að finna í þeim. Þetta benti til þess að hér væri um að ræða mjólk af einhverju tagi. Til að styrkja þann grun fundust einnig stuttar keðjur fitusýra við greiningavinnuna. Slíkt er afar sjaldgæft í fornu leirtaui og þótti benda til þess að mjólkin sem bollarnir geymdu væri fersk en ekki unnin.

Frekari greining á bollunum benti síðan til þess að í einum af heilu bollunum og þeim sem fannst brotinn innihélt á einhverjum tímapunkti mjólk úr jórturdýri. Líklegast þykir að um hafi verið að ræða geita- eða kúamjólk. Þriðji bollinni innihélt síðan einhverskonar mjólkurblöndu og þótti rannsóknarhópnum líklegt að þar væri um að ræða mjólk úr svíni eða konu.

Ekki vitað í hvaða tilgangi mjólkin var gefin

Niðurstöðurnar benda sterklega til þess að stútkönnurnar hafi verið nýttar til þess að gefa börnum á þessum tíma mjólk úr dýrum öðrum en okkar eigin tegund. Ekki er vitað hvort dýramjólkin hafi í einhverjum tilfellum verið notuð sem staðgengill móðurmjólkur eða hvort hún hafi fremur verið gefin þegar börnin byrjuðu að neyta annarrar næringar en móðurmjólkurinnar. Einnig kann að vera að mjólkin hafi verið notuð í einhverjum tilgangi tengdum menningu samfélaga mannfólks á þessum tíma.

Hverjar sem ástæðurnar voru fyrir mjólkurgjöfinni þykir ólíklegt að slík mjólk hafi verið notuð ein og sér án þess að önnur næring væri gefin meðfram. Mjólk úr öðrum dýrum en okkar eigin tegund er samsett á annan hátt sem hentar ekki jafn vel til að styðja við þroska ungabarna og móðurmjólkin. Hún inniheldur þar að auki fitur sem gera börnum erfiðara fyrir að taka upp næringarefni. Þetta er meðal annars ástæða þess að þegar börn geta af einhverjum ástæðum ekki drukkið móðurmjólk á fyrstu mánuðum ævi sinnar er þeim gefin þurrmjólk en ekki til dæmis hrein kúamjólk.

Ekki einsdæmi

Mjólkurdrykkja barna virðist hafa verið nokkuð útbreidd um heimsálfuna. Bollarnir sem voru greindir í rannsókninni sem hér um ræðir fundust í Þýskalandi. Í leirtaui sem fannst við Miðjarðarhaf og er frá svipuðum tíma hafa einnig fundist leyfar af mjólk. Hver ástæðan fyrir því að forfeður okkar hófu þessa iðju eða nákvæmlega hvenær hún hófst er enn óljóst og alls ekki víst að við munum nokkurn tíman komast að niðurstöðu um það.

Ein tilgátan er sú eða þegar mannfólkið kom upp föstum búsvæðum hafi mjólk frá húsdýrum nýst sem viðbótarnæring fyrir börn við lok brjóstagjafar. Þetta gæti sér í lagi hafa verið gagnlegt þegar systkini voru nálægt hvort öðru í aldri eða þegar móðurmjólkin var ekki nægilega mikil.

Mjólkin lengi fylgt Evrópubúum

Hver svo sem ástæðan er fyrir því að mannfólkið tók upp á því að gefa börnum sínum mjólk sem ekki var móðurmjólk er ljóst að mjólkin hefur fylgt Evrópubúum í þúsundir ára. Fyrri rannsóknir á erfðum mannfólks í Evrópu hafa meðal annars sýnt fram á að Evrópubúar voru upp til hópa með mjólkuróþol í um 4000 ár eftir að ostagerð hófst. Með tímanum þróuðu þeir með sér leið til að brjóta niður laktósa, sykru sem finnst í mjólkurvörum, í líkamanum og er það ástæða þess að meirihluti Evrópubúa þola mjólkurvörur í dag.

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.