Mynd: Martha Wellner / MLU
Mynd: Martha Wellner / MLU

Kaffi er uppáhaldsdrykkur margra, enda fjöldi fólks sem telur daginn ekki hafinn fyrr en búið er að dreypa á fyrsta kaffibollanum. Notkun á mjólk og stundum sykri er vel þekkt og mætti jafnvel fullyrða að a.m.k. helmingur þeirra sem drekka kaffi velja að drekka það með slettu af mjólk.

Þessi mjólkursletta getur valdið nokkrum vandræðum þegar kaffi er drukkið við ákveðnar aðstæður, t.d. í flugvélum eða á ráðstefnum. Við slíkar aðstæður þykir oft ekki fýsilegt að vera með stóra mjólkurfernu. En til að gera mjólkurdrykkjufólki til hæfis eru oft til staðar pínulitlar umbúðir sem innihalda akkúrat það sem samsvarar einni slettu af mjólk.

Það gefur auga leið að litlu fernurnar skilja eftir sig gommu af rusli, aðallega plasti, sem lesendur Hvatans vita að er gott að forðast. Til að leysa þetta vandamál hefur rannsóknarhópur við Martin-Luther-Universität Halle-Wittenberg hannað nokkurs konar mjólkurmola, mola sem innihalda fljótandi mjólk inní sykurkristallahylki.

Mjólkurmolarnir verða til þegar mjólkinni og súkrósa eða gervisykrinum erythritol er blandað saman og síðan kælt á ákveðinn hátt í sérstökum formum. Við kælinguna mynda sykursameindirnar kristalla sem raðast upp utan um mjókina. Inní hylkinu er því fljótandi mjólk sem blandast við kaffið þegar sykurinn hefur bráðnað saman við það.

Samkvæmt rannsóknum hópsins geta molarnir enst í allt að 3 vikur, svo það er tilvalið fyrir flugfélög eða hótel að nýta þennan kost til að minnka sorpið. Því miður er staðan ennþá þannig að þeir hafa engan áhuga á því að drekka sykrað kaffi geta ekki nýtt þessi hylki. En við treystum á að lausn við því verði fundin fyrr en varir. Á sama tíma er einnig unnið að því að skoða hvort hylkin uppfylli allar þær kröfur sem við gerum til matvæla, en fyrr er ekki hægt að selja mjólkurmolana sem matvöru.