Það er vel þekkt hjá mannfólki að konur lifa að meðaltali lengur en karlar. Ný rannsókn staðfestir að það sama á við hjá fjölda spendýrategunda en óljóst er hvað veldur.

Konur lifa lengur er karlar

Á Íslandi var meðalævilengd karla 81.0 ár árið 2018 á meðan hún var 84.1 ár hjá konum, að því er kemur fram á vef Hagstofu Íslands. Svipaða sögu er að segja víðsvegar um hnöttinn. Að meðaltali lifa konur nefnilega marktækt lengur en karlar.

Að meðaltali lifa konur sex til átta árum lengur en karlar. Þar að auki eru níu af hverjum tíu einstaklingum sem ná 110 ára aldri konur.

Rannsóknarhópur sem samanstóð af vísindamönnum við University of Lyon í Frakklandi, University of Turku í Finnlandi, University of Bath háskóla á Bretlandi, auk fleiri, birti nýverið grein í tímaritinu Proceeding of the National Academy of Sciences sem fjallaði um rannsóknir þeirra á samanburði á ævilengd kynjanna á meðal spendýra.

Afgerandi munur hjá spendýrum

Alls tók rannsóknin til 101 tegundar spendýra. Það kom rannsóknarhópnum á óvart að niðurstaðan var sú að munurinn á meðalævilengd kynjanna hjá villtum dýrum var enn meiri en hjá mannfólki. Samkvæmt niðurstöðunum lifðu kvendýr lengur en karldýr hjá 60% dýrategunda. Að meðaltali lifðu kvendýrin hvorki meira né minna en 18.6% lengur en karldýr sömu tegundar.

Aldursmunurinn virtist ekki felast í því að kvendýr eltust hægar líffræðilega séð. Fremur gæti munurinn falist í því að dánartíðni meðal fullvaxta kvendýra var lægri en hjá karldýrum. Enn er óljóst hvort þetta skýri muninn og þá hvað það er sem liggur að baki. Nokkrar tilgátur eru þó á lofti.

Karldýr víðsvegar í dýraríkinu eru þekkt fyrir að leggja mikið á sig til að æxlast. Í sumum tilfellum getur æxlun fólgið í sér lífshættulega hegðun. Niðurstöður þessara rannsóknar bentu þó ekki til þess að það væri helsta ástæðan fyrir mun í ævilengd milli kynjanna.

Önnur skýring gæti falist í lífstílsmynstri spendýra. Í einhverjum tilfellum njóta kvendýr til dæmis stuðnings annarra kvendýra út ævina. Sem dæmi um þetta nefna höfundarnir ljón. Ljónynjur lifa ásamt einu karldýri í hópi þar sem ljónynjurnar njóta stuðnings hver frá annarri. Aftur á móti er algengt að karlkyns ljón lifi ein utan fasts hóps stóran hluta ævinnar.

Kostur samstæðra kynlitninga

Fyrri rannsóknir á sama sviði hafa bent til þess að mögulega sé einhver kostur falinn í því að bera tvo eins kynlitninga, líkt og kvenkyns spendýr gera. Nýleg rannsókn á 229 tegundum dýra sem tók til spendýra, auk fugla, skordýra og fiska styður þessa tilgátu. Þar var staðfest að meðal fugla, þar sem kvendýr bera ZW kynlitninga en karldýr tvo Z kynlitninga, er algengt að karldýr lifi lengur en kvendýr.

Þrátt fyrir þetta er einnig nokkur munur á lífslíkum milli kynjanna milli tegunda sem ekki skýrist af kynlitningum einum saman. Málið er því flóknara en svo.

Erfðir eða náttúran?

Lengi hafa vísindamenn leitast viðað skilja í hverju þessi munur á milli kynjanna, hjá okkar eigin tegund, felst. Getgátur hafa meðal annars verið uppi um að hér sé um að ræða erfðafræðilegan mun eða mun á lífstíl milli kynjanna. Með því að horfa á málið út frá öðrum spendýrategundum getum við vonandi skilið betur hvað það er sem liggur hér að baki.

Næstu skref rannsóknarhópsins eru að kanna hvort sambærilegan mun á milli lífslíka milli kynjanna sé að finna hjá dýrum sem alist hafa upp í dýragörðum. Þannig er ætlunin að skilja betur hvort það séu þættir í lifnaðarháttum dýranna í náttúrunni sem spili stóra rullu eða hvort eitthvað annað liggi að baki.

Greinin birtist fyrst í útgefnu blaði og á vefsíðu Stundarinnar.