Mynd: HRL Laboratories
Mynd: HRL Laboratories

Eitt af meginmarkmiðum flugvélahönnuða er að gera flugvélar ódýrari í rekstri með því að létta þær. Ef hægt er að létta flugvélar þó ekki sé nema örlítið kemur strax fram sparnaður í eldsneyti sem er ekki einungis hagkvæmt fyrir budduna heldur einnig fyrir umhverfið.

Í myndbandinu hér að neðan kynnir Sophia Yang efnið microlattice, en efnið var hannað af Sophiu og samstarfsfélögum hennar við HRL Laboratories. Microlattice er léttasta málmefni sem fyrirfinnst, að sögn Sophiu. Ástæðan er sú að efnið hefur þvívíddarbyggingu sem gerir það að verkum að um 99% efnisins er loft. Hver eining microlattice er ekki nema 100 nm á þykkt og er smíðuð úr nikkel. Vísindahópurinn bindur vonir við að þetta efni verði fljótlega notað í flugvélar, sem leiðir þá til minni eldsneytisnotkunar og hagstæðara verðs á flugmiðum.