bacon

Beikon er ein af þeim matartegundum sem flestir elska, þó auðvitað leynist svartir sauðir inná milli sem geta ekki hugsað sér að borða beikon. Beikon er nánast bara fita, og smá kjöt, bæði reykt og saltað, sem gerir það eiginlega frekar óhollt.

En bara lyktin af beikoni getur gert fólk vitlaust, enda örvast ákveðin svæði í heilanum þegar við finnum lyktina af beikoni sem setur til dæmis munnvatnskirtlana af stað. Hvers vegna er beikon eiginlega svona gott? Mögulega finnst okkur það svona æðislegt vegna þess að það inniheldur ótrúlegt magn af hitaeiningum í hverjum bita. Hér fyrr á öldum, þ.e.a.s. þegar mannskepnan bjó enn í hellum og hafði ekki vit á að rækta landið sér til matar, var matvara oft af skornum skammti og þegar eitthvað féll til var eins gott að borða mikið til að eiga forða fyrir næsta svelti. Af þessari ástæðu gæti líkaminn verið svona sólginn í hitaeiningaríkan mat eins og beikon.

Þó beikon sé kannski ekki mjög hollt þá er það eins og allt annað, gott í hófi. Hópurinn í ASAPScience talar meira um beikon í myndbandinu hér að neðan.