Mynd: Wa Eye Care
Mynd: Wa Eye Care

Nærsýni kallast það þegar fólk á erfitt með að sjá hluti sem eru langt frá þeim, þ.e. fólk á auðveldara með að sjá nálægt sér. Þetta fyrirbæri virðist hrjá annan hvern einstakling, a.m.k. ganga margir með gleraugu og líklega jafnmargir nota linsur eða annan búnað til að hjálpa sér að sjá. Ný rannsókn bendir til þess að innan skamms verði einmitt annar hver einstaklingur nærsýnn og mun fimmtungur þess hóps vera blindur eða svo gott sem.

Hvatinn hefur nú þegar fjallað um tengsl inniveru og nærsýni, sjá hér og hér. Nokkrar rannsóknir þess efnis hafa verið birtar, en allar sýna þær að aukin útivera minnki líkurnar á nærsýni.

Nú hefur rannsóknarhópur við Brien Holden Vision Institute birt grein þar sem færð eru rök fyrir því að fjöldi nærsýnna mun fimmfaldast frá árinu 2000-2050 og samhliða því mun blindum einstaklingum fjölga. Þessa auknu tíðni má að miklum hluta skrifa á minnkandi útivist barna og aukna áherslu á athafnir þar sem sjóninni er beint að hlutum nálægt einstaklingum.

Til að bregðast við þessu þarf fyrst og fremst að draga úr ofantöldum þáttum, auka útivist og leggja meiri áherslu á athafnir þar sem augunum er beint að fjarlægum hlutum. Mögulega má einnig fjölga heimsóknum til augnlækna og lyfjameðferðir sem sporna við nærsýni gætu orðið möguleiki í framtíðinni. Við vonum auðvitað að sú verði ekki raunin, þangað til ættum við að leggja áherslu á útileiki við börnin okkar í stað þess að leyfa þeim að eyða stórum hluta eftirmiðdagsins fyrir framan tölvuna.