Okkar innri líkamsklukka hefur verið Hvatanum hugleikin í vetur, sér í lagi eftir að uppgötvanir Jeffery C. Hall, Michael Rosbach og Michael W. Young á sameindakerfinu bak við líkamsklukkuna hlutu Nóbelsverðlaun í Læknisfræði nú í október.

Líkamsklukkan hefur heilmikil áhrif á hvaða gen við erum að tjá hverju sinni og þar af leiðandi hvernig líkaminn okkar virkar dagsdaglega. En hvað hefur áhrif á líkamsklukkuna? Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að ljós á „röngum“ tíma sólarhringsins hefur áhrif á líkamsklukkuna. Samkvæmt rannsókn, sem birt var nýlega í The Journal of Physiology, eru þessi áhrif mögulega af öðrum toga en áður var talið.

Melatónín er hormón sem heilinn framleiðir þegar myrkva tekur, þ.e. melatónín kveikir á þreytu í líkamanum og segir honum að nú sé kominn tími til að fara að sofa. Sökum þessarar sveiflu í melatónín framleiðslu heilans hefur hormónið oft verið notað sem mælikvarði á áhrif utanaðkomandi þátta á líkamsklukkuna.

Í rannsókninni sem Dr Shadab Rahman, við Harvard háskóla, leiddi var fylgst með litlum hópi fólks og viðbrögðum þeirra við sveiflum í dagsbirtu. Þegar hópurinn var útsettur fyrir ljósi yfir næturtímann varð breyting eða flökt í melatónín framleiðslu sem kom ekki á óvart. Það sem hins vegar var óvænt var að minnkun melatónín framleiðslunnar var engan veginn í hlutfalli við styrk ljóstruflunarinnar.

Þátttakendur sýndu breytingu í tjáningu á melatóníni í hvert skipti sem svefn þeirra var truflaður með ljósi. Þessi ljóstruflun ýtti undir breytingu í líkamsklukkunni, þannig að einstaklingar breyttu um svefntakt. Breytingin á svefntaktinum var í samhengi við lengd tímans sem ljóstruflunin varði en það sama var ekki að segja um tjáningu melatóníns. Breytingin á tjáningu melatóníns var nokkuð svipuð, hvort sem ljóstruflunin varði lengi eða einungis í skamma stund.

Þessar niðurstöður benda til þess að breytingar í líkamsklukkunni eru ekki mælanlegar með melatónín framleiðslu eingöngu. Hingað til hafa rannsóknir á svefnmynstri byggt að miklu leiti á melatónín framleiðslu. Samkvæmt þeirri rannsókn sem hér er fjallað um, eru slíkar mælingar ekki nægilega nákvæmar til að segja til um áhrif utanaðkomandi þátta á svefn okkar og líkamsklukku.

Frekari rannsóknir í stærra þýði munu vonandi varpa enn frekara ljósi á það hversu mikið við getum treyst á melatónín mælingar til að meta fyrrgreinda þætti.