Mynd: Someya Laboratory
Mynd: Someya Laboratory

Þrýstunemar eru tæki sem notuð eru til að skynja þrýsting. Sem dæmi um notagildi þeirra inná heilbrigðisstofnun væri hægt að nota þá til að skynja æxlisvöxt inní líffærum eða þrýsting í æðum. Flestir þrýstiskynjarar sem notast er við í dag eru þó þeim annmörkum háðir að þeir geta bara numið þrýsting á tiltlulega sléttu yfirborði og svo eru þeir helst til þykkir, 100 µm 0,1 mm. Verkfræðingar við Háskólann í Tokyo hafa nú reynt að mæta þessum vanda með nýrri tækni.

Neminn sem rannsóknarhópurinn lýsir í grein sinni sem birtist í Nature Nanotechnology er umtalsvert þynnri en þeir nemar sem nú eru til. Neminn er ekki nema 8 µm að þykkt en það samsvarar 0,008 mm, sem sagt rosalega þunnur. Það sem gerir nemann enn frekar eftirsóknarverðan er hversu sveigjanlegur hann er, en hægt er að nota hann til að nema þrýsting á svæðum sem eru ekki slétt. Það er óneitanlega kostur þar sem mannslíkaminn er í fæstum tilfellum fullkomlega sléttur og má þar sérstaklega nefna tiltekið líffæri sem oft þróast í krabbamein, brjóst.

Til að ná þessum sveigjanleika notaði hópurinn mismunandi kolefnisbyggingu til að tengja nemann saman í eina heild. Neminn er því að mestu leiti byggður á nanótrefjum, nanótúbum og því sem kallast graphene en er nokkurs konar kolefnisnet. Þetta gerir nemann bæði mjög þunnan og einstaklega sveigjanlegan.

Nú þegar hafa verið gerðar prófanir þar sem neminn er notaður til að skynja þrýsing í æðum og gefur það góðan árangum. Vonandi verða fleiri spennandi niðurstöður birtar frá þessum hópi í bráð svo við getum fylgst með framþróun tækninnar.