Mynd: Huffington Post
Mynd: Huffington Post

Raðgreining er hugtak notað um þá aðgerð að skoða DNA röð. Til að raðgreina þarf flókna tækni sem les hvern basa fyrir sig og segir okkur í hvaða röð þeir koma fyrir. Það er ekki einungis tæknin sem er flókin heldur getur verið mjög flókið að lesa úr niðurstöðum raðgreininga líka og þess vegna er mikilvægt að hafa öflugan tölvubúnað sem tekur við gögnunum sem raðgreinirinn gefur okkur.

Það eru þess vegna stórtíðindi að NASA hefur nú tekist að framkvæma raðgreiningu útí geimnum, raðgreinar eru nefnilega yfirleitt stór tæki sem ekki er hægt að flytja á milli staða með góðu móti. Þessu vandamáli hefur breskt fyrirtæki sem heitir Oxford Nanopore Technologies reynt að svara með tæki sem kallast MinION. Þetta litla tæki er varla stærra en súkkulaðistykki og er hægt að nota til að raðgreina. Tækið þarf að vísu að vera tengt við öfluga tölvu en þær eru ekki af skornum skammti, jafnvel úti í geimnum.

MinION var að vísu ekki hannað til að fara útí geim, heldur var hugmyndin á bak við tækið að geta raðgreint með lítilli fyrirhöfn, jafnvel á sýnatökustað. Hins vegar getur það skipt máli fyrir rannsóknir okkar útí geimnum hvort tæki á borð við þetta virki rétt í nýjum aðstæðum eins og geimurinn býður uppá.

Þess vegna var ákveðið að prófa að raðgreina svepp sem hefur gert vart við sig á The International Space Station (ISS). Það gleður okkur að segja að tilraunin tókst með eindæmum vel og að raðgreiningar í geimnum verða ekki hindraðar vegna þess að tæknina skortir. Þessi raðgreining er vonandi einunigs sú fyrsta af mögum.

NASA birti myndband um fyrstu raðgreininguna í geimnum sem hægt er að sjá hér að neðan.