Leikfangafyrirtækið Lego hefur tilkynnt að næsta lína frá fyrirtækinu komi til með að hafa vísindakonur hjá NASA í aðalhlutverki. Hugmyndin kom í kjölfar þess að fyrirtækið var hvatt til þess að heiðra konur í vísindageiranum.
Samkvæmt tilkynningu frá NASA verður verkefnið unnið í samvinnu við geimferðastofnunina of mun vera hægt að kaupa leikföngin seint á þessu ári eða snemma árið 2018.
Fígúrurnar verða fimm talsins og verða allar byggðar á raunverulegum konum sem unnið hafa fyrir NASA. Konurnar eru Margaret Hamilton, tölvunarfræðingur, Katherine Johnson, stærðfræðingur, Nancy Grace Roman, stjörnufræðingur, auk geimfaranna Sally Ride og Mae Jemison.
Leikföngin eru liður í því að auka úrval leikfanga þar sem konur spila aðalhlutverk og sýna þær í störfum innan vísindageirans.