Mynd: Jamie Grill/Getty Images/Tetra Images RF
Mynd: Jamie Grill/Getty Images/Tetra Images RF

Snjallsímar eru gagnlegir á margan hátt en virðast einhvernvegin hafa tekið yfir líf margra. Því miður virðist skaðinn ekki einungis vera sá að fólk er andlega fjarverandi við ýmsar iðjur heldur benda niðurstöður nýrrar rannsóknar til þess að snjallsímar geti haft skaðleg áhrif á ástarsambönd og aukið líkurnar á þunglyndi.

Í rannsókninni, sem birt var í tímaritinu Computers in Human Behaviour, skoðuðu markaðsfræðingarnir James A. Roberts og Meredith David áhrif snjallsímanotkunar á pör. Tvær kannanir voru lagðar fyrir 453 fullorðna einstaklinga til að þess að skilja áhrif þess þegar annar aðalinn í sambandi hunsar maka sinn meðan hann eða hún notar farsímann.

Í ljós kom að það skapaði oft ágreining þegar einstaklingar upplifðu það að maki þeirra væri að hunsa þá fyrir símann sinn. Í kjölfarið upplifðu einstaklingar meiri óánægju með sambandið sem gat leitt til meiri óánægju með lífið almennt og aukið líkurnar á þunglyndi.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að 46,3% þátttakenda höfðu upplifað það að vera hunsaðir af maka sínum þegar hann eða hún var í símanum. 22,6% sögðu að það hafi valdið ágreiningi í sambandinu og 36,6% upplifðu þunglyndi að einhverju leiti. Aðeins 32% þátttakenda sögðust vera mjög ánægðir með sambandið sitt.

Í fréttatilkynningu sagði David að fólk geri oft ráð fyrir því að það stutt truflun af völdum farsíma sé lítið mál en að niðurstöðurnar bendi til annars.

Höfundar greinarinnar hvetja fólk til að vera meðvitað um farsímanotkun sína og ætti það ekki að reynast fólki erfitt að leggja símann frá sér tímabundið og njóta augnabliksins með makanum.