Með tilkomu síðasta söludags á matvöru virðist mannkynið hafa misst þann einstaka hæfileika sinn (sem öll dýr hafa reyndar) til að greina á milli matvöru sem er skemmd og óskemmd með sjónrænu mati, lyktar- og bragðskyni. Það er synd þar sem slíkt mat getur hæglega komið í veg fyrir töluverða matarsóun.

Í viðleitni okkar til að hjálpa fólki að virkja þessa náttúru á ný höfum við tekið saman nokkur atriði úr lista Erin Brodwin, sem upphaflega var skrifaður fyrir Business Insider.

  •  Egg eiga ekki að fljóta í vatni. Þó eggjaskurn sýnist alveg heil þá er hún örlítið gegndræp. Þetta gegndræpi getur aukist ef eggið er byrjað að skemmast og því getur fljótandi hrátt egg verið vísbending um skemmd.
  • Þegar jógúrtið þitt er komið framyfir síðasta söludag er ekki endilega víst að það sé óætt. Vökvasöfnun í jógúrti bendir til skemmda en ef jógúrtið lítur vel út og lyktar eðlilega eru líkur á því að þér sé óhætt að borða það.
  • Lykt og áferð segja meira um aldur kjöts en litabreytingar. Margir hafa t.d. rekið augun í brúna bletti í nautakjöti. Þó þessar breytingar stingi í stúf við það sem við erum vön þá þýða þær ekki að kjötið sé skemmt. Bakteríuvöxtur í ferskri kjötvöru er yfirleitt betur merkjanlegur með lyktar- eða áferðarbreytingum, t.d. ef kjötið fær súra lykt eða áferðin verður slímug.
  • Sama á við um fisk, ef fiskurinn lyktar eins og skata, þá er hann skemmdur. Ammóníak lykt af ferskum fiski er ekki eðlileg. Samhliða lyktarbreytingunum verður fiskurinn oft slímugur og ef liturinn fer mikið útí gulan eða bleikan, þá er ástæða til að láta hann fara. Fiskur hefur auk þess yfirleitt ekki mjög langan líftíma, svo best er að nota hann sem allra fyrst.
  • Þránuð olía missir þessa fersku lykt sem við finnum þegar við finnum þegar varan er fersk. Margir eiga erfitt með að greina þráabragð, en það kemur af feitum matvörum þegar fitan fer að oxast. Þetta gerist ekki þegar fitan er mettuð, en í til dæmis olíum getur ómettaða fitan oxast með tímanum. Þegar olía er orðin mjög þrá má jafnvel vænta þess að finna svipaða lykt og finnst í skemmum.
  • Í þessum efnum er líka gott að hafa í huga að matvörur fá tvenns konar dagsetningar, þ.e. síðasti neysludagur eða síðasti söludagur. Í báðum tilfellum er um að ræða viðmiðunar dagsetningar, en síðasti neysludagur hefur yfirleitt meira gildi en síðasti söludagur. Þ.e. ef varan hefur farið fram yfir síðasta neysludag, þá getur verið ástæða til að varast hana.

Ef við færum aðeins meira eftir nefinu og aðeins minna eftir dagsetningu væri hægt að draga verulega úr matarsóun í hinum vestræna heimi. Auðvitað er dagsetning til viðmiðunar á matvörum heppileg, en í mörgum tilfellum er mjög auðvelt að meta ástand matvörunnar. Ef þú ert ekki viss þá er auðvitað leyfilegt að láta heilsuna njóta vafans.