Mynd: Telethon Kids Institute
Mynd: Telethon Kids Institute

Í mörgum löndum heimsins er reynt að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir unglingsstúlkna með kynfræðslu. Auk þess er á sumum stöðum notast við eins konar gerivbörn til að sýna unglingum fram á erfiðleikana sem fylgja því að eiga barn og hvetja þá þannig til að nota getnaðarvarnir. Samkvæmt niðurstöðum ástralskrar rannsóknar skilar notkun slíkrar gervibarna þó ekki árangri, þvert á móti virðist hún auka líkurnar á ótímabærum þungunum.

Hugmyndin á bakvið gervibörnin er nokkuð einföld en unglingar fá eitt slíkt í hendurnar og þurfa að hugsa um það í ákveðinn tíma. Gervibörnin hegða sér á svipaðan hátt og ungabörn, það þarf að gefa þeim, skipta á þeim, þau gráta og er ekki er hægt að skilja þau ein eftir heima. Tilgangurinn er auðvitað sá að unglingarnir geri sér grein fyrir þeim tíma og þeirra ábyrgð sem fylgir því að eiga barn og ákveði frekar að bíða með það skref þar til þau eru eldri.

Í rannsókninni sem um ræðir var 3.000 áströlskum stúlkum á aldrinum 13 til 15 ára fylgt eftir þar til þær voru 20 ára. Helmingur stúlknanna fékk í hendurnar gervibarn einhverntíman á milli 13 til 15 ára aldurs en hinn helmingurinn ekki. Í ljós kom að af þeim stúlkum sem hugsuðu um gervibarn urðu 17% barnshafandi fyrir 20 ára aldur en 10% þeirra sem ekki hugsuðu um gervibarn. Ekki var marktækur munur á milli tíðni fóstureyðinga í hópunum, en hún var um 57% á heildina litið.

Miðað við niðurstöður rannsóknarinnar skilaði notkun gervibarna því ekki tilskyldum árangri í að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir sem vekur upp spurningar um ágæti aðferðarinnar.

Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu The Lancet.