Mynd: Mind Body Health
Mynd: Mind Body Health

Hugleiðsla með núvitund er tiltölulega nýtt fyrirbæri hér á Íslandi. Þeir sem til þess þekkja bera því vel söguna og margir ganga svo langt að segja að núvitund sé nauðsynleg til að koma okkur í gegnum daginn í þeim hraða sem nútímasamfélagið einkennist af. Áhrif núvitundar hafa ekki farið fram hjá vísindamönnum og margir hópar hafa lagt stund á að skilgreina hvaða áhrif núvitund hefur á einstaklinga. Ein slík var birt í vísindaritinu Journal of Neuroscience nýlega sem sýnir að hugleiðsla með núvitund getur minnkað sársauka.

Rannsóknin var framkvæmd á 75 sjálfboðaliðum sem allir voru látnir upplifa 120°C hita á húð, en það er ansi sársaukafullt. Sjálfboðaliðunum var skipt í fjóra meðhöndlunarhópa, einn sem stundaði hugleiðslu, annar sem stundaði hugleiðslu með núvitund, þriðji fékk lyfleysu og sá fjórði og síðasti fékk enga meðhöndlun. Sjálfboðaliðarnir voru svo bæði beðnir um að meta sársauka sinn en að auki var tekin mynd af heilastarfsemi þeirra.

Sjálfboðaliðar sem stunduðu hugleiðslu með núvitund upplifðu mun minni sársauka en aðrir sjálfboðaliðar. Ekki nóg með að upplifun þeirra á sársaukanum var minni heldur var heilastarfsemi þeirra líka öðruvísi. Hjá hópnum sem stundaði hugleiðslu með núvitund virkjuðust svæði í heilanum sem tengd hafa verið við getu fólks til að hafa stjórn á sársauka. Þessi svæði voru ekki eða minna örvuð í öðrum hópum. Að auki var minni virkni í stúkunni (thalamus) hjá þeim sem stunduðu núvitund, en stúkan gegnir einmitt því hlutverki að miðla skynjun okkar til annara hluta heilans. Vísindahópurinn telur að með því að minnka virkni stúkunnar sé heilinn að loka á skynjun sársaukans.

Þessar niðurstöður benda til þess að mögulegt sé að nota núvitund til að meðhöndla sársauka í stað þess að gefa verkjalyf.