MH370

Þó meira en ár sé liðið síðan flug MH370 hvarf veit enginn enn nákvæmlega hvað gerðist. Enn er leitað að braki úr vélinni, þó leitin sé ekki eins umfangsmikill og áður. Nú hafa leitarteymin fengið stærðfræðinga frá Texas A&M University í lið með sér til að spá betur fyrir um hvað gæti hafa gerst. Vísindamennirnir hafa lagt sig í lima við að reikna út og hanna herma sem sýna hvernig flugvélin gæti hafa lent og hvernig best sé að standa að leit að braki hennar.

Vísindamennirnar bjuggu til hermilíkan af 5 mögulegum atburðum sem gætu hafa átt sér stað við hrap vélarinnar. Hún hefur verið yfir hafi og því taka öll líkönin mið af því hvernig brakið dreifist miðað við undir hvaða horni vélin skellur á yfirborðinu.

Það líkan sem þykir líklegast segir að vélin hafi skollið niður með nefið beint niður og því myndað 90° horn við hafflötinn. Með þessu móti hafa vængir og stél, þeir hlutir sem brjóta helst upp kraftinn, brotnað fljótt af og restin af búknum sokkið hratt til botns. Þetta líkan varð fyrir valinu sem líklegasta líkanið vegna þess að lítið sem ekkert af brakinu hefur fundist fljótandi á eða við yfirborð sjávar.

Niðurstöður líkananna gefa til kynna að líkur á því að finna brak eða olíu úr vélinni eru hverfandi. Þessar niðurstöður breyta einhverju um þau leitarskilyrði sem björgunarleiðangrar setja sér. Þó að líklega sé enn langt þangað til öll kurl komast til grafar í þessu máli þá er hér um að ræða enn eitt púslið í myndina um hvað varð um flugvélina.

Hér má lesa skýrslu vísindahópsins í heild sinni en þar birta þau alla 5 möguleikana og hvernig brakið í vélinni hefði dreifst í hverju tilfelli.