Mynd: Berkeley News
Mynd: Berkeley News

Að lamast frá mitti hefur víðtækar afleiðingar fyrir einstaklinga, nefnilega þær að viðkomandi getur ekki lengur gengið. Það hefur óneitanlega áhrif á líf þeirra sem eru vanir að komast leiðar sinnar á tveimur jafnfljótum að þurfa allt í einu að komast leiðar sinnar í hjólastól. Sem betur fer er aðgengi fyrir hjólastóla alltaf að batna, en því miður er það samt svo að það er alls ekki gert ráð fyrir þeim alls staðar sem þýðir að hjólastólar setja líka félagslegar hömlur á einstaklinga sem þá nota.

Til að auka lífsgæði einstaklinga sem þurfa að nota hjólastól hefur fyrirtæki sem kallast SuitX unnið að því síðan árið 2000 að þróa ytri grind með mótor sem lamaðir geta notað til að hjálpa sér að komast á milli staða. Grindin sem var opinberuð í síðastliðinni viku kallast Phoenix og er sérstök að því leiti að hún er létt, aðlagast líkama notandans og er hreyfanleg við mjaðmirnar sem gerir það að verkum að einstaklingurinn sem notar grindina getur gengið allt að 1,8 kílómetra. Að auki duga batteríin í mótorunum sem knýja hreyfinguna áfram í átta klukkustundir.

Verkefnið hefur eins og áður segir verið í gangi síðan árið 2000 og hafa ýmsar framfarir átt sér stað á þeim tíma. Aðstandendur verkefnisins vonast til að þó tæknin muni ekki geta snúið lömuninni til baka þá muni hún að minnsta kosti draga úr líkum á frekari meiðslum sem hljótast af langvarandi setu. Enn sem komið er kostar þessi hjálparbúnaður um 40 þúsund bandaríska dollara sem er um það bil 5 milljónir íslenskar krónur, það er líklega meira en flestir eiga til að reiða fram sí svona en vonandi með fjöldaframleiðslu búnaðarins lækkar kostnaðurinn nægilega mikið til að verða á viðfáðanlegu verði.

Heimildir:
Berkeley News
MIT Technology Review