Sú mynd sem við höfum af dreifingu mannskepnunnar um jörðina er að hluta til gloppótt. Það er margt sem við vitum en að sama skapi er margt sem við vitum ekki, þó með fleiri og fleiri rannsóknum reynum við að fylla uppí götin og fá þannig heildstæða mynd. Stundum vill svo skemmtilega til að við vitum ekki betur en að sagan heil, þegar nýjar vísbendingar koma svo til sögunnar sem benda til að myndin er kannski ekki eins og við höfum teiknað hana upp í fyrstu.

Það er einmitt raunin með niðurstöður erfðagreininga á fornleifasýnum sem unnin voru við University of Alaska Fairbanks. Rannsóknin sem leidd er að Ben Potter, prófessor við háskólann hefur staðið yfir í nokkur ár þar sem unnið hefur verið að rannsóknum á fornleifum sem fundust við Upward Sun River í Alaska í kringum 2006. Þessi fornleifastaður er staðsettur nálægt þeim stað þar sem íshella myndaði brú yfir Beringshaf á ísöld og tengdi saman Síberíu og Alaska.

Talið er líklegt að upprunalegir íbúar Ameríku hafi komið frá Asíu, yfir Beringsbrúnna svonefndu. Þessi hópur fólks settist þó ekki að svo norðarlega heldur ferðaðist sunnar og hefur verið kallaður Native Americans eða frumbyggjar Ameríku. Fornleifarannsóknirnar við Upward Sun River gefa þó nýja mynd á þetta ferðalag.

Hluti af fornleifunum eru líkamsleifar tveggja ungra stúlkna sem náðist að einangra erfðaefni úr til raðgreiningar. Raðgreining erfðaefnisins leiddi í ljós að sennilega er ekki um að ræða skyldmenni þeirra frumbyggja sem hingað til hefur verið talið að hafi einir byggt Ameríku. Þar sem erfðaefnið gefur til kynna að um algjörlega óskyldan flokk hafi verið að ræða þá hefur rannsóknarhópurinn gefið fólkinu sem þarna bjó nafnið Ancient Beringians.

Rannsóknarhópur Ben Potters telur að um tvær sviðsmyndir gæti verið að ræða. Önnur er sú að tveir hópar fólks hafi ferðast yfir Beringsbrúnna á mismunandi tímapunktum. Annar hópanna hefur sest að norðarlega meðan hinn hefur ferðast lengra suður. Hinn möguleikinn er að einn hópur hafi komið frá Asíu en síðan skipst í tvennt, þar sem hluti hópsins settist að á svæðinu við Upward Sun River meðan aðrir ferðuðust lengra suður.

Hvort sem hefur gerst þarna í upphafi er líklegt að sá hópur sem áður var talinn eini frumbyggjahópur Ameríku hefur svo ferðast aftur norður eftir álfunni og þar hafa hóparnir hisst á ný. Þannig hefur að öllum líkindum aftur orðið blöndun á hópnum sem gerir það að verkum að erfðaefni Ancient Beringans er ekki hægt að finna sem slíkt í neinum núlifandi þjóðarhópum.

Þessar niðurstöður breyta óneitanlega sýn okkar á ferðalag mannsins um heiminn og dreifingu hans um jörðina. Það verður spennandi að sjá hvaða fleiri upplýsingar verður hægt að finna í Upward Sun River fornleifauppgreftrinum.