Mynd: http://www.stardustforbowie.be/
Mynd: http://www.stardustforbowie.be/

Það fór varla framhjá nokkrum manni að David Bowie lést þann 10. janúar eftir baráttu við krabbamein. Það sem færri vita er að belgískir stjörnufræðingar ákváðu að nefna stjörnumerki í höfuðið á þessum merka listaman.

Stjörnumerkið hefur fengið nafnið “Aladdin Sane” eftir plötu sem Bowie gaf út árið 1973. Á plötuumslagi Aladdin Sane má sjá fræga mynd af Bowie með eldingu teiknaða á andlit sitt en stjörnumerkið Aladdin Sane, sem sjá má hér að ofan, er einmitt í laginu eins og elding.

Að sögn belgíska stjörnufræðingsins Philippe Mollet voru sjö stjörnur valdar til að mynda stjörnumerkið: Sigma Librae, Spica, Alpha Virginis, Zeta Centauri, SAA 204 132 og Beta Sigma Octantis Trianguli Australis.

Tekið skal fram að stjörnumerkið er ekki viðurkennt af Alþjóðasambandi stjarnfræðinga og ólíklegt er að það verði gert. Aftur á móti var smástirni nefnt í höfuðið á tónlistarmanninum árið 2015 og heitir það „342843 David­Bowie“.