Þrátt fyrir að stöðugar framfarir læknavísindanna geri okkur kleift að lifa lengur en forfeður okkar gerðu þá mun stöðug hækkun hámarksaldurs nú fljótlega ná toppinum. Ástæðan er sú að lifnaðarhættir okkar hér í hinum vestræna velmegunarheimi ýta undir alls kyns lífstílstengda sjúkdóma.

Til að stemma stigu við þessu hafa margir vísindahópar reynt að beina sjónum sínum frekar að orsök sjúkdómanna frekar en að finna lækningu við þeim. Ein slík rannsókn sem unnin var í músum birtist á dögunum í Cell og segir ótrúlega sögu um hvernig matarræði hefur áhrif á ónæmiskerfið okkar.

Rannsóknarhópurinn bar saman tvo músahópa sem fengu mismunandi fæðu. Annar fékk fæðu sem innihélt mikið af fitu og sykri en lítið af trefjum sem kallast í rannsókninni vestræn fæða. Hinn hópurinn, viðmiðunarhópurinn, fékk hins vegar hefðbundna fæðu fyrir mýs. Til að meta áhrif fæðunnar á ónæmiskerfi músanna voru tekin blóðsýni úr einstaklingum innan beggja hópa og hvítu blóðkornin greind.

Í ljós kom að sá hópur sem neytti vestrænnar fæðu hafði mun fleiri hvít blóðkorn á sveimi í blóðinu. Hvít blóðkorn eru frumur sem tilheyra ónæmiskerfinu og mikill fjöldi þeirra í blóði er oftast tilkominn vegna sýkingar. Í þessu tilfelli var ekki um sýkingu að ræða heldur óhefðbundið matarræði, en líkami músanna brást við eins og sýkingu væri að ræða.

Þegar frumurgerðir voru greindar kom einnig í ljós að þarna voru aðallega á ferðinni frumur sem sinna fyrstu viðbrögðum ónæmiskerfisins. Til að rýna enn dýpra í það hvað var á seyði inní líkama músanna voru einangraðar frumur úr beinmerg, þar sem vefjasérhæfðar stofnfrumur ónæmiskerfisins búa.

Þegar stofnfrumurnar voru skoðaðar m.t.t. genatjáningar þeirra kom í ljós að þar hafði verið opnað fyrir tjáningu á genum sem örva frumuskiptingu og þroskun nýrra ónæmisfrumna. Slíkar breytingar á tjáningarmynstri eru nauðsynlegar þegar ónæmiskerfið þarf að bregðast við sýkingu.

Því miður virtust þessar breytingar ekki ganga til baka, jafnvel fjórum vikum eftir að mýsnar hættu að fá vestrænt fæði. Eftir að rannsóknarhópurinn hætti að gefa músunum vestrænt fæði, fækkaði hvítum blóðkornum á nýjan leik, þ.e. ónæmissvarið hjaðnaði en erfðaefni vefjasérhæfðu stofnfrumnanna var þó enn opið fyrir tjáningu gena sem stuðla að þroskun nýrra frumna. Það þýðir að ónæmiskerfið er næmara fyrir smávægilegum breytingum sem gætu leitt til óþarfa bólgusvars.

Miðað við þessar niðurstöður má draga þá ályktun að með óhollu fæði erum við að ýta undir stöðugt bólgusvar ónæmiskerfisins. Það er sérstaklega áhugavert í ljósi þess að marga lífstílstengda sjúkdóma í hinum vestræna heima má rekja til stöðugra bólgna í líkamanum, svo sem gigt, sjálfsofnæmissjúkdóma eða hjarta- og æðasjúkdóma.

Næstu skref hjá rannsóknarhópnum eru væntanlega að skoða hvort sambærileg áhrif vestrænnar fæðu er að finna í mönnum, en mögulega talar sjúkdómatíðnin þar sínu máli. Það verður spennandi að fylgjast með komandi rannsóknum á þessu sviði. Þangað til hvetjum við alla til að borða trefjaríka og holla fæðu.