coconut

Fyrir ekki svo löngu síðan var sú manneskja vandfundin á Íslandi sem hafði reynslu af kókosolíu en í dag hafa sennilega allir smakkað hana og fjölmargir skipt út annarri olíu fyrir kókosolíuna. Ástæðan er sú að þrátt fyrir það að vera á föstu formi við herbergishita er kókosolían talin mjög holl olía.

Olíur eru samsettar úr margskonar fitusýrum. Sumar þeirra eru mjög hollar og jafnvel lífsnauðsynlegar meðan aðrar fitusýrur eru minna hollar og jafnvel skaðlegar. Þær síðarnefndu geyma t.d. fitur sem eru sagðar mettaðar. Mettaðar fitur eru erfiðari niðurbrots fyrir líkama okkar og geta þær valdið hækkun á slæmu kólesteróli í blóði. Þetta gildir ekki um ómettaðar og þá sérstaklega fjölómettaðar fitur.

Góð leið til að meta hvaða olíur innihalda mikið af mettuðum fitum er að skoða hvernig olían er við herbergishita. Þumalputtareglan er sú að olíur/fitur sem eru á föstu formi við herbergishita innihalda svo mikið af mettuðum fitusýrum að þær teljast óhollar. Svo virðist sem þessi þumalputtaregla gildi líka um hina margrómuðu kókosolíu, þrátt fyrir allt.

Í rannsókn sem American Heart Association byggir nýjustu ráðleggingar sínar á, kemur fram að magn mettaðra fitusýra í kókosolíu er um 82%, það er jafnvel hærra en í smjöri sem mældist 63%. Til samanburðar má nefna að ólífuolía, sem er mjög holl, inniheldur 14%.

Fyrir flesta heilbrigða einstaklinga hefur þetta háa hlutfall mettaðra fitu ekki teljandi áhrif, þ.e. ef hennar er neytt í hæfilegu magni. Hins vegar ef einstaklingur hefur mælst með of hátt kólesteról í blóði getur inntaka á kókosolíu haft neikvæð áhrif á þróun þess ástands. Hátt kólesteról getur leitt til æðaþrengsla, því fitan getur sest til inní æðunum, sem svo getur leitt til stíflu og jafnvel hjartaáfalls.

En hvers vegna dynja á okkur upplýsingar um ágæti kókosolíunnar? Svarið er einfalt: frábær markaðssetning! Það getur verið erfitt að skilja úr hvaða skilaboð úr umhverfinu eru byggð á raunveruleikanum og hvað er byggt á löngun framleiðenda til að selja vöruna sína. Því miður virðist það síðarnefnda hafa ráðið för þegar kemur að fullyrðingum um kókossolíu.