baby-reading

Fæstir hafa farið varhuga af þeirri óhugnarlegu staðreynd að stór hluti drengja sem klára grunnskóla hér á landi geta ekki lesið sér til gagns. Það sama er uppi á teningnum í Noregi, en þar er hlutfallið meðal 15 ára drengja 21%.

Þessi þróun er afar slæm og getur valdið þessum einstaklingum ómældri óhamingju. Til að reyna að sporna við þessu hefur norskur rannsóknarhópur, reyndar með Íslending í fararbroddi, birt rannsókn þar sem sýnt er fram á að hægt er að finna þessa einstaklinga mun fyrr í skólakerfinu.

Í rannsókninni er stafrófs-þekking barna í 6 ára bekk metin. Börnin, sem voru alls 485, voru beðin um að svara hvað bókstafirnir hétu og hvaða hljóð þeir stóðu fyrir. Meðalaldur barnanna var rétt yfir 6 ára en þau höfðu öll tiltölulega ný hafið nám í grunnskóla.

Í ljós kom að heilmikill munur var á drengjum og stúlkum í þessari rannsókn. Þessi munur viðhelst svo í gegnum grunnskólann þar til börnin útskrifast og hluti þeirra hefur því miður aldrei náð almennilega tökum á því að lesa.

Grunnforsenda þess að börn læri að lesa er að þau kunni bókstafina. Það skiptir líka mjög miklu máli að börnin hafi áhuga á að lesa, en áhuginn gæti horfið mjög fljótt ef barnið finnur að það er að dragast aftur úr og á erfitt með að ná tökum á verkefninu.

Strax í upphafi skólagöngu má merkja mun á milli kynjanna hvað varðar þekkingu á okkar helsta lestrarverkfæri. Með því að greina svo snemma hvaða börn það eru sem þurfa sérstaka aðstoð við lestur má mögulega auka líkurnar á því að þau geti lesið sér til gagns í lok grunnskólagöngu.

Það er þó ekki bara í höndum menntakerfisins að skilgreina hvaða nemendur eru ólíklegir til að ná tökum á lestri. Fjölmargar rannsóknir sýna að foreldrar og aðrir sem umgangast börn koma öðruvísi fram við stráka og stelpur. Stelpur fá þannig að meðaltali meiri þjálfun í bókstöfunum og hljóðunum tengdum þeim samanborið við stráka.

Eins og með svo ótalmargt annað, þá megum við ekki gleyma að setja upp kynjagleraugun þegar kemur að því að ala upp börnin okkar og veita þeim þjálfun í því sem við vitum að mun gagnast þeim í lífinu.