Mynd: Frank Liu Photograpy

Folaldið á myndinni hérna að ofan fellur líklega ekki undir þá mynd sem flestir hafa í huga þegar þeir hugsa um sebrahesta. Þrátt fyrir það er folaldið sebrahestur sem fæddist nýlega á sléttum Maasai Mara í Kenía. 

Sebrahesturinn, sem fengið hefur nafnið Tira, hefur eðlilega vakið mikla athygli og má segja að það hafi sigrað hjörtu internetsins á síðustu dögum vegna vinsælda sinna.

Ástæðuna fyrir óvenjulegu útliti folaldsins má rekja til melanisma. Melanismi veldur því að litarefnið melanín finnst í auknu magni í húð og hárum dýrsins. Að auki hafa litir í mynstrinu víxlast. Venjulega hafa sebrahestar rendur sem mætast á hvítum kviðnum en þessu er öfugt farið á Tiru sem hefur brúnan kvið með hvítum doppum í stað randa.

Sebrahestar með melanisma eru óvenjuleg sjón en Tira er ekki einsdæmi. Fyrsta sebrahestinum með melanisma var lýst árið 1977 af dýrafræðingnum Jonathan Bard.

Melanismi er einnig þekkt fyrirbæri í öðrum tegundum dýra og er algengt í stórum kattardýrum. Andstæðan við melanisma er albínism sem er töluvert algengari og lýsir sér í því að minna magn af melaníni finnst í líkamanum eða að það skortir algjörlega.

Þrátt fyrir að okkur þyki útlit Tiru vera fallegt gæti hún þurft að gjalda fyrir það. Óvenjulegt útlir hennar gæti nefnilega gert hana útsettari fyrir því að verða rándýrum að bráð þar sem að hún sker sig töluvert úr hópnum.