Space station in Earth orbit.
Space station in Earth orbit.

Við mennirnir erum ekki bara subbur á okkar eigin plánetu, þar sem við virðumst geta skilið eftir endalaust magn af rusli, heldur er geimurinn einnig að verða að ruslakistu eftir tilraunir mannanna til að skilja hann betur. Margt af því sem fer útí geiminn kemur ekki aftur til jarðar heldur svífur um sporbaug jarðar.

Nú hefur vísindahópur við École polytechnique fédérale de Lausanne, tæknistofnun í Sviss, þróað tæki sem á að senda útí geim til að ryksuga upp gervihnöttinn Swisscube sem er ekki lengur í notkun en hefur ekki skilað sér til jarðar.

Það er hægara sagt en gert að ryksuga í geimnum, þar er ekkert þyngdarafl og hlutirnir sem á að ryksuga eru þó nokkuð stærri en lóin sem myndast á gólfinu okkar auk þess sem þeir eru á stöðugri hreyfingu. Tækið sem verður notað er eins og risastór Pac-Man og þarf að reikna út fjarlægðina í Svisscube og grípa hann svo inní nokkurs konar net. Eyðing gervihnattarins á svo að fara fram inní Pac-Man.

Hluti af rannsóknarhópnum útskýrir þetta enn frekar í myndbandinu hér að neðan.

Þessi tilraun er hluti af stærra verkefni CleanSpace One sem snýst um að auka meðvitund fólks um ruslið í geimnum og finna leiðir til að draga úr því.