Smart-pill

Gáfunum sem við mælum í skólakerfinu er misskipt milli einstaklinga. Sumir rækta sínar gáfur vel meðan aðrir berjast við að rækta gáfur sem þeir hafa lítið af. Skólakerfið og samfélagið okkar hefur oft verið gagnrýnt fyrir að leggja of mikla áherslu á ákveðna gerð gáfna og gera minna úr gáfum eins og verkviti eða listrænum hæfileikum. Til að fylla uppí rammann sem samfélagið setur eða auka þær gáfur sem maður óskar sér að hafa væri því ansi snjallt ef til væri jafn einföld lausn og pilla.

Það er vel þekkt að nemendur í stórum háskólum sem gera miklar kröfur nota ólögleg lyf til að auka getu sína í námi, sérstaklega örvandi lyf á borð við rítalín. Nýverið hafa svo komið upp tilvik þar sem lyfið modafinil er notað í sama tilgangi, en lyfið er til þess gert að meðhöndla drómasýki, . Lyfið er talið auka getu heilans til rökuhugsunar, ákvarðanatöku og annarra eiginleika sem gott er að búa yfir þegar leysa á flókin verkefni.

Nýverið var framkvæmd rannsókn við háskólana Oxford og Harvard þar sem skoðað var hvort modafinil er í raun og veru sú gáfnapilla sem fólk heldur hana vera. Í ljós kom að pillan hefur ekki bara tilætluð áhrif á heilann heldur virðast aukaverkanir af því að nota lyfið á þennan hátt ekki hafa neinar teljandi aukaverkanir.

Þessar niðurstöður vekja upp margar siðfræðilegar spurningar. Það getur hljómað jákvætt að auka gáfur sínar með einni pillu en þessar niðurstöður opna líka á ólöglega verslun með lyfið, svipað og við höfum horft uppá með rítalínið. Að sama skapi er rétt að velta fyrir sér hvort það sé forsvaranlegt að gefa slík lyf til heilbrigðra einstaklinga til þess eins að auka getu þeirra. Mögulegar aukaverkanir af langvarandi notkun hafa ekki verið skoðaðar en að auki er notkun lyfsins að auka enn meira á stéttarskiptingu, sérstaklega í löndum þar sem bæði lyf og menntun eru mjög dýr.