11006209_10152710303327705_121013686_n

Höfundur: Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir, líffræðingur og grunnskólakennari

Á skjánum eru maður og kona, maðurinn liggur þungt haldinn af flensu í rúminu með fráhneppta náttskyrtuna. Konan heldur á Vicks kvefkremi og ber á bringu mannsins um leið og hún syngur línurnar „mjúki köttur, hlýi köttur, litli loðbolti“. Manninum líður umsvifalaust betur.

Hvort það er Vicks kremið eða vögguvísan, nú eða að konan hafi þvílíkan lækningamátt í höndunum, sem gerir þennan ótrúlega bata vitum við ekki. Þó er líklegast að um sé að ræða hefðbundna kvefpest sem er einfaldlega að renna sitt skeið og maðurinn verður fær um fótaferð von bráðar. Við heilsubrest reynir fólk ýmislegt til að ná heilsu aftur og þó jafnvel meira til þess að fyrirbyggja það að veikjast. Þetta hefur verið vitað um aldir og verið mörgum féþúfa, en um leið hafa margir verið gerðir að fíflum. Um aldamótin 1900 var sett á markað í Bandaríkjunum snákaolía, fyrir augum kaupandans var hún sögð vera safi sem kreistur hefði verið úr skröltormum og átti að lækna alla helstu kvilla sem hrjáð gátu menn. Raunin var þó sú að snákaolían var að uppistöðu til jarðolía, terpentína og kamfóra. Snákaolían hafði því líklega svipaða virkni og kvefkremið sem minnst var á í upphafi, en ólíklegt að hún hafi haft þennan gríðarlega víðtæka lækningamátt sem sölumaðurinn hélt fram að hún hefði.

Á síðustu dögum hefur umræðan um nútíma- snákaolíur þó orðið meiri, sérstaklega í kjölfar umfjöllunar Kastljóss um málið. Nú á tímum er þó vinsælast að notfæra sér vísindin til að auka trúverðugleika hinna ýmsu söluvara sem eiga að lækna sjúkdóma sem taldir eru ólæknanlegir. Meðferðirnar sem boðið er upp á eru af margvíslegum toga en eiga það sameiginlegt að hafa ekki verið viðurkenndar af læknum, í besta falli gera þær ekki neitt, en þó eru dæmi um að slík meðferðarloforð geti verið skaðleg. Dæmi um slíkt er rafmeðferð þar sem haldið er um rafskaut sem senda svo rafstraum í gegnum líkamann. Fari straumurinn í gegnum hjartað sjálft getur það valdið dauða. Önnur meðferð er vatnsdrykkja. Vatnsdrykkja er jú af hinu góða, en samkvæmt sölumönnum er nauðsynlegt að jóna vatnið, enda sé venjulegt vatn allt of súrt fyrir líkamann, nú eða þá að blása ósoni í vatnið. Raunar er hægt að kaupa ósontæki hér á landi sem lofa margvíslegum árangri með því að nota óson; það sótthreinsi nærföt, eyði áhrifum aukaefna í grænmeti og ávöxtum og eyði flösu svo nokkuð sé nefnt. Til að útskýra jónun stuttlega er það þegar vetnis og súrefnisjónum er fjölgað í vatni, með því að kljúfa efnasambandið H2O. Við það myndast jónirnar H+ og OH- en við það lækkar sýrustig vatns örlítið. Ósonmeðferð hinsvegar byggist á því að ósoni O3 er blásið í drykkjarvatn og það síðan drukkið. Þetta er dæmi um meðferð sem gæti í besta falli verið gagnslaus með öllu.

Það virðist augljóst að hér er markmiðið einfalt, að græða á þekkingarleysi fólks með því að nota vísindi sem einhverskonar Trójuhest. Það er nefnilega því miður ekki svo einfalt að við læknum krabbamein með öppum, ósondrykkju eða því að halda um rafskaut. Hitt er svo annað mál að ýmislegt sem ekki fellur undir hefðbundin læknavísindi getur látið okkur líða betur, hvort sem það er góður göngutúr eða vögguvísa um loðinn kettling. Mikilvægast er að vera vakandi fyrir því sem að okkur er rétt og afla sér upplýsinga frá öruggum heimildum.