11006209_10152710303327705_121013686_n

Höfundur: Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir, líffræðingur og grunnskólakennari

Páskarnir eru að bresta á. Það er af sem áður var að valið stæði á milli venjulegs eggs frá Nóa og strumpaeggs, tegundirnar eru óteljandi og í stað málshátta er nú hægt að fá heilræði frá Sverri Stormsker í eggjunum, allt eftir óskum neytandans. Undirrituð átti þó alltaf erfitt með páskaeggin, ekki einungis fyrir þær sakir að skylda var að borða morgunmat áður en páskaeggið væri opnað, heldur langaði mig alltaf meira í strumpaegg þó svo að súkkulaðið væri betra í eggjunum með unganum ofaná. Súkkulaðið sigraði þó að lokum og í seinni tíð hefur það verið staðfest með vísindalegum hætti að það sé nú bara ekkert svo slæmt eftir allt saman og jafnvel hollara en franskbrauð með marmelaði sem þó er viðurkenndur morgunverður.

Upphaflega kemur súkkulaði frá Mexíkó þar sem Mayar, Inkar og Aztecar ræktuðu kakótréð og hægt er að rekja nýtingu trésins allt til 1750 fyrir Krist. Eftir ferðir Kristófers Kólumbus barst þekkingin um nýtingu kakótrésins til Evrópu og hefur æ síðan verið gríðarlega vinsælt, hvort heldur sem drykkur, líkt Mayar nýttur tréð, eða sem evrópskt konfekt. Theobroma cacao er latneska heiti trésins sem myndi útleggjast á íslensku „fæða guðanna“ enda voru jákvæð heilsufarsleg áhrif vel þekkt meðal ræktenda í Mið Ameríku, löngu fyrir markaðssetningu „heilsusúkkulaðis“ nútímans. Til forna var súkkulaðis neytt sem drykkjar. Það var ekki fyrr en um eða uppúr aldamótunum 1800 að kakósmjör var unnið úr afurðum trésins og farið var að framleiða súkkulaði dagsins í dag. Í dag er þó bæði mjólk og rjóma bætt við súkkulaðið og fást þannig hinar ýmsu gerðir sem skipta fólki í neytendahópa. Það þýðir til dæmis lítið að bjóða hörðum 70% súkkulaðineytanda upp á rjómasúkkulaði með hnetum og rúsínum.

Neikvæð áhrif súkkulaðis tengjast fyrst og fremst ofneyslu á því auk þess sem sumar rannsóknir hafa bent til þess að súkkulaði sé ávanabindandi. En jákvæð áhrif súkkulaðineyslu eru vel þekkt, og voru það raunar löngu áður en vestrænar þjóðir hrifsuðu súkkulaðimarkaðinn til sín. Fyrr á tíðum var súkkulaði meðal annars talið vera hið fínasta frygðarlyf en seinni tíma rannsóknir hafa sýnt að það inniheldur bæði tryptófan og anandamíð. Tryptófan er mikilvæg amínósýra við framleiðslu serótóníns sem hefur áhrif á skap og almenna líðan. Anandamíð hefur sömuleiðis áhrif á skap og nú er verið að þróa lyf til að herma eftir verkun anandamíða í líkamanum til að nota gegn þunglyndi og depurð. Þó skal geta þess að til að fá sambærilegt magn af anandamíðum og tryptófani og líkaminn framleiðir sjálfur frá náttúrunnar hendi þyrfti að neyta nokkurra kílóa af dökku súkkulaði dag hvern, og þá væri offita skammt undan. Flavóníðar eru jafnframt til staðar í súkkulaði og þá sérstaklega í lítið unnu kakói þar sem við að búa til kakósmjör verður einungis 10% af upprunalegu magni flavóníða eftir. Flavóníðar eru til staðar í mörgum ávöxtum og hafa gríðarlega góð árhif á hjartasjúkdóma, minnka líkur á æðakölkun og lækka blóðþrýsting. Rannsóknir hafa meðal annars sýnt að fólk sem borðar súkkulaði oftar en einu sinni í viku er í minni áhættu á að fá hjartasjúkdóma en þeir sem neyta þess sjaldnar. Því vil ég, um leið og ég óska ykkur gleðilegra páska, hvetja til súkkulaðineyslu nú yfir páskahelgina, ef ekki ánægjunnar vegna, þá að minnsta kosti vegna heilsunnar.