11006209_10152710303327705_121013686_n

Höfundur: Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir, líffræðingur og grunnskólakennari

Mikill skortur er á tæknimenntuðu fólki og hefur verið um árabil. Þó er sérlega mikill skortur á raungreinamenntuðum konum en á móti hverri konu sem útskrifast úr þessum greinum útskrifast þrír karlar. Raunin er líka sú að í fjölmiðlum er okkur ekki boðið upp á fjölbreyttan hóp vísindamanna. Staðalímynd vísindamannsins birtist kannski best í „The Big Bang Theory“ (sem Rúv myndi væntanlega þýða sem „Menntamenn í makaleit“) þar sem vísindamennirnir eru félagslega heftir þrátt fyrir að vera mjög framarlega á sínu vísindasviði en vilja lítið fara út fyrir sína sérgrein. Vísindakonurnar sem þar birtast er líka snyrtilega komið fyrir í margfrægum staðalmyndum, þurrar á manninn og fram úr hófi bældar. Eina persónan sem ekki er innvinkluð í vísindasamfélagið er gengilbeinan Penny sem jafnframt er dregin mynd af að sé einföld, allt að því illa gefin. Þessi mynd er því miður allt of algengt að sé dregin upp og ekki beint til þess að vekja áhuga ungs fólks á raunvísindum.

Ég held að við séum ansi mörg af þeirri kynslóð sem horfði dolfallin á Indiana Jones á laugardagskvöldum og var staðráðin í því að gerast fornleifafræðingar. Ég sjálf varð reyndar nokkuð svekkt þegar ég komst að því að ólíklegt væri að ég kæmist í álíka ævintýri og Herra Jones hér á landi, enda fá grafhýsi og glæpaklíkur ekkert svo algengar.

Síðan þá hefur lítið verið af vísindafyrirmyndum fyrir börn verið í boði. Það var þess vegna himnasending þegar Ævar Vísindamaður, Sprengju- Kata og Vísinda Villi stigu fram á sjónarsviðið og gerðu raunvísindi aftur kúl. Þó svo að margt sé gert til að vekja athygli á raunvísindum er spurning hversu langt út fyrir þröngan hóp vísindamanna það nær. Það sem nú virðist samt vera að glæðast er áhugavakning meðal barna. Þessir þrír karakterar sem áður voru nefndir hafa verið vinsæl meðal barna og unglinga síðustu misseri þar sem þau tala um vísindi á mannamáli þannig að allir ættu að geta skilið. Kosturinn við að hafa umfjöllun um vísindi miðuð að börnum er ekki hvað síst sá að foreldrarnir eru oft neyddir til að horfa líka. Það er nefnilega alveg hægt að hafa áhugaverða umfjöllun um flókin málefni fyrir börn og þannig leggjum við grunninn að því að fleiri velji sér vísindin sem framtíðarstarf. Í það minnsta gerir það pestardaga með veikum börnum mun bærilegri að fá að horfa á Ævar Vísindamann fjalla um vísindi heldur en margþýddar teiknimyndir um talandi blóm og veltikarla.