plast-rusl

Dyggir lesendur Hvatans muna líklega eftir, og tóku vonandi þátt í, plastlausum júlí nú í sumar. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skiptið sem slíkt átak er sett á laggirnar en átakið verður alltaf stærra og stærra með hverju árinu og þátttakendum fjölgar ár hvert.

Nú hafa átta íslenskar konur, sem tóku þátt í átakinu, tekið sig saman um að halda plastleysinu á lofti og ýtt úr vör, plastlausum september. Eins og nafnið gefur til kynna snýst verkefnið um að draga úr plastnotkun í september.

Þetta frábæra framtak er innblásið af hinu alþjóðlega framtaki Plastic free July. Í báðum tilfellum er tilgangurinn að vekja okkur neytendur til umhugsunar um allt plastið sem við notum í daglegu lífi og gætum svo vel verið án. Stór partur af plastinu sem við notum er einungis notað í nokkrar mínútur, má þar nefna plastglös eða rör, sem við svo vel sleppt.

Átök eins og plastlaus september er tilvalin tími til að líta aðeins í eigin barm, og út fyrir rútínu-rammann, til að skoða hvar við getum dregið úr notkun á þessum skaðvaldi náttúrunnar. Það er svo auðvelt að breyta bara pínulítið útúr hefðbundinni rútinu og með litlum skrefum getum við búið til stóran þrýstihóp sem ýtir framleiðendum í átt að minni óþarfa plastnotkun.

Á heimasíður átaksins plastlausseptember.is er hægt að kynna sér verkefnið, aðstandendur þess og síðast en ekki síst hvernig er hægt að taka þátt. En við hvetjum að sjálfsögðu alla til þess.