sf-fingerprint

Í flestum tilfellum þar sem grunur leikur á um fíkniefnanotkun þarf að taka prufur af líkamsvessum eins og blóði, þvagi eða munnvatni. Vísindahópar við þrjár breskar stofnanir og eina hollenska hafa nú þróað próf sem nemur kókaínneyslu í gegnum fingrafar.

Hingað til hafa slík próf ekki gert greinamun á því hvort einstaklingur hefur snert kókaín eða tekið það inn. Prófið sem hóparnir þróuðu skynjar efni sem heita benzóýlecgonine and methýlecgonine, en það eru niðurbrotsefni kókaíns sem neytandinn seitir m.a. út um húðina.

Mæliaðferðin byggir á jónun og gasmyndun með rafúðun eða á ensku Desorption Electrospray Ionisation. Það þýðir að til að mæla hvaða efni eru til staðar í t.d. fingrafarinu er efnunum umbreytt í jónir (sem eru hlaðnar sameindir) með rafúðun. Á sama tíma fara efnin yfir í gasfasa, þ.e.a.s þau gufa upp og leita þá inní tæki sem heitir massagreinir. Massagreinir er flókið tæki sem getur metið hvaða efni eru til staðar útfrá massa þeirra.

Enn sem komið er, eru ekki til massagreinar sem hægt er að hafa með sér í lögreglubílnum en þrátt fyrir það eru mælingar sem þessar auðveldari og minna tímafrekar en að taka blóð eða þvag, sem þarf þjálfaðan mannskap í, og senda sýnin á rannsóknarstofu til rannsóknar. Að auki getur skapast ákveðin hætta við meðhöndlun líkamsvessa sem ekki er til staðar þegar fingrafarið er mælt.

Rannsóknin birtist nýlega í vísindaritinu Analyst og á heimasíðu University of Surrey birtist fréttatilkynning um málið.