Mynd: The Walking Dead
Mynd: The Walking Dead

Kvikmyndir og sjónvarpsþættir um uppvakninga njóta alltaf ákveðinna vinsælda en eru að sjálfsögðu algjör uppspuni. Þrátt fyrir það er áhugavert að velta fyrir sér hvernig mannkynið tæki á slíkum vanda og var það einmitt viðfangsefni rannsóknar sem nokkrir eðlisfræðinemar framkvæmdu.

Niðurstöðurnar voru síður en svo mannkyninu í vil því samkvæmt útreikningum nemanna tæki það ekki nema um 100 daga þar til mannkynið teldi aðeins 300 einstaklinga. Þegar þar væri komið við sögu væru um milljón uppvakningar fyrir hverja manneskju.

Þó það virðist virðist vera ansi vonlaus staða fyrir mannkynið sýndu útreikningar rannsóknarhópsins að ekki var öll von úti. Með tímanum ætti mannfólk að verða betra í að berjast gegn uppvakningum og verja sig auk þess sem börn myndu fæðast. Vegna þessara þátta bjóst rannsóknarhópurinn við því að það tæki það mannkynið um 1.000 daga (2,7 ár) að útrýma uppvakningunum og síðan 25 ár í viðbót þar til mannkynið væri farið að ná sér á strik á ný.

Til þess að reikna út hvaða áhrif uppvakningar hefðu á mannfólk var gert ráð fyrir að hver uppvakningur gæti fundið eina manneskju á dag og að líkurnar á smiti með uppvakningaveirunni væru 90%. Útbreiðsla sjúkdómsins var síðan kortlögð með svokölluðu SIR módeli og mannkyninu var skipt upp í þrjá hópa: sóttnæma (S), uppvakninga (Z) og látna (D). Ekki var gert ráð fyrir náttúrulegum fæðingum og dauðsföllum á tímabilinum þar sem aðeins var um að ræða 100 daga tímabil. Því var gengið út frá því að fæðingar og dauðsföll væru ómarktæk.

Rannsóknin var framkvæmd af nemum við Leicester háskóla og var hluti af árlegu verkefni þar sem nemar kanna ímyndaðar aðstæður. Niðurstöðurnar voru birtar í tveimur greinum (hér og hér) í ritrýnda tímaritinu Journal of Physics Special Topics sem rekið er af nemendum.