swimmingpool

Nú þegar sól hækkar á lofti og hitastigið fer rísandi verða sundlaugar landsins vinsælli. Þær eru ekki einungis vinsælar meðal innfæddra heldur laða þær að sér ferðamenn sem hafa lagt leið sína til landsins. Hér á landi gilda strangar reglur um þvotta áður en haldið er útí sundlaugarnar. Það eru þó einhverjir sem hlýða ekki reglunum og auk þess eru alltaf einhverjar bakteríur eða agnir sem við náum ekki að þvo af okkur áður en við förum í pottana og til að koma í veg fyrir sýkingar af þeirra völdum er klór bætt útí laugarvatnið.

Þar sem síður strangar reglur gilda um þvotta áður en haldið er til laugar er því settur meiri klór í vatnið til að drepa nú örugglega allt illt sem þangað fer. En þó klórinn geti drepið sumar bakteríur á nokkrum mínútum eru aðrar sem taka sér lengri tíma og á það meðal annars við um sumar bakteríur sem valda niðurgangi. Slíkar aðstæður eiga sérstaklega við þar sem klórinn er þegar bundinn við önnur óhreinindi í vatninu.

Þegar klórinn binst við efni úr þvagi og svita mynda þau saman ertandi efni, svo þegar augun verða rauð eftir sund, þá er það vegna óhreinindanna sem hafa bundist við klórinn í lauginni. Það er því mjög mikilvægt að fólk þvoi sér vel áður en haldið er ofan í laugina og það er alltaf góð regla að pissa ekki þar sem annað fólk situr og slappar af, sérstaklega þegar afslöppunin á sér stað í heitum potti.

Íslenskar sundlaugar teljast sem betur fer frekar hreinar og langflestir sundlaugagestir þvo sér vandlega áður en farið er útí. Þegar leiðbeinandi reglur sem Centers for Disease Control and Prevention stofnunin í Bandaríkjunum gaf út eru skoðaðar þá hljóma þær nokkurn veginn eins og umgengni er um sundlaugar hér á Íslandi. Sama stofnun birti einnig pistil um hvað gerist í sundlaugum ef hreinlætis er ekki gætt.

Svo þó einhver hætta sé að því að klórinn drepi ekki allar bakteríur þá skilar gott hreinlæti við sundlaugar heilmiklu og við getum því haldið áfram að venja komur okkar í pottana í góðu veðri (sem og slæmu) og hvetjum að sjálfsögðu ferðamenn til að gera slíkt hið sama.