Mynd: Apple
Mynd: Apple

Apple tilkynnti á dögunum að fyrirtækið hyggst nota viðbót sem nefnist ResearchKit til að rannsaka flogaveiki, einhverfu og sortuæxli.

Í gegnum ResearchKit er hægt að búa til smáforrit (e. app) fyrir rannsóknir og getur almenningur þannig tekið þátt í rannsóknum í gegnum snjallsímann sinn. ResearchKit var sett af stað snemma á árinu og hafa nokkrir rannsóknarhópar í Bandaríkjunum nú þegar byrjað að nota það til að safna gögnum.

ResearchKit er spennandi nýjung, enda gerir hún vísindamönnum kleift að ná til fleira fólks en með hefðbundnum aðferðum, jafnvel um allan heim.

Nýju smáforritin sem Apple kynnti til leiks eru eftirfarandi:

Mole Mapper notar myndavél símans til að fylgjast með breytingu á fæðingablettum með það að markmiði að hægt sé að greina sortuæxli snemma. Notendur geta þannig fylgst með fæðingablettum sínum og jafnvel sýnt lækninum myndir af þeim breytingum sem hafa átt sér stað.

Autism & Beyond er smáforrit sem Duke University og Duke Medicine þróuðu. Myndavél símans er notuð ásamt algóriþma sem nemur tilfinningar til þess að kanna viðbrögð barna við myndböndum sem þau horfa á í símanum.

EpiWatch var þróað af John Hopkins Háskóla til að rannsaka flogaveiki. Smáforritið notar nema í Apple Watch til að skynja upphaf og tímaleng floga. Þegar notandi ýtir á skjá úrsins getur EpiWatch meðal annars safnað upplýsingum um hjartsláttatíðni þess sem ber það auk þess að senda tilkynningu til nánasta aðstandanda.

Eftir því sem Hvatinn kemst næst nær engin af þeim rannsóknum sem hafin er yfir Ísland en miðað við framtakssemi Íslendinga líður líklega ekki á löngu þar til íslenskir vísindamenn nýta sér þessa nýju tækni.