new-the-flintstones-movie-warner-bros

Í rannsókn á vegum University College London þar sem veiðimanna- og safnarasamfélög nútímans voru skoðuð kom í ljós að almennt séð ríkir í þeim jafnrétti milli kynjanna. Mannfræðingar telja niðurstöðurnar benda til þess að í veiðimanna- og safnarasamfélögum forfeðra okkar hafi einnig ríkt jafnrétti, samkvæmt frétt The Guardian.

Rannsóknarhópurinn, sem leiddur var að Mark Dyble, telur að jafnrétti hafi ríkt allt fram að því þegar menn hófu að stunda landbúnað. Dyble segir að það gæti verið að jafnrétti kynjanna hafi haft þróunarfræðilega kosti og átt stórann þátt í því að móta samfélög manna og þróun tegundarinnar.

Í rannsókninni skoðuðu vísindamennirnir ættfræði tveggja veiðimanna- og safnarasamfélaga í Kongó og á Filippseyjum. Litið var til þátta eins og skyldleika, hreyfingu á milli búða og búsetmynstra. Á báðum stöðum kom í ljós að hóparnir töldu yfirleitt um 20 einstaklinga og fluttu sig um set á um 10 daga fresti.

Það sem vakti áhuga rannsóknarhópsins var að í þeim tilfellum þar sem karlmenn réðu því hvernig skyldi byggja nýjar búðir voru hóparnir mjög skyldir, til dæmis samsettir úr fjórum bræðrum, mökum þeirra og börnum. Ef jafnrétti ríkti í því hvernig skyldi byggja búðirnar varð hópurinn hins vegar erfðafræðilega fjölbreyttari. Að mati höfundanna gæti þetta þýtt að þróunarfræðilega hafi verið betra fyrir forfeður okkar að búa við jafnrétti enda myndu fjölbreyttari hópar hafa stærra tengslanet og líkur á innræktun væru minni. Auk þess bendir Dyble á að með stærra tengslaneti er líklegra að fólk hafi getað deilt nýrri tækni og tólum með fleiri einstaklingum.

Niðurstöðurnar, sem birtar voru í tímaritinu Science, eru sérstaklega áhugaverðar í ljósi þess að margir telja að jafnrétti sé fremur nýtt af nálinni. Þvert á móti gæti verið að það hafi verið normið löngu áður en það fór að halla á konur.