Mynd: Bjørn Christian Tørrissen/Wikipedia
Mynd: Bjørn Christian Tørrissen/Wikipedia

Fornleifafræðingar hafa fundið risavaxið net borga í frumskóginum sem umlykur musteri Angkor Wat í Kambódíu.

Talið er að borgirnar séu 900 til 1.400 ára gamlar og gætu sumar þeirra jafnvel verið stærri en Phnom Penh, höfuðborg Kambódíu. Grein um fundinn var birt í tímaritinu Journal of Archaeology í gær.

Til þess að staðsetja borgirnar notaði rannsóknarhópurinn tækni sem nefnist LiDAR. Tæknin var upphaflega notuð af herjum til að finna kafbáta neðansjávar. Seinna kom í ljós að hægt var að nota hana á landi með góðum árangri.

Rannsóknin er viðamesta fornleifafræðirannsókn sem gerð hefur úr lofti og voru 1.901 ferkílómetrar rannsakaðir á árunum 2012 og 2015.

Í ljós kom að á svæðinu var að finna víðtækt kerfi vatnsæða og vega sem tengdu saman margar borgir. Áður höfðu fornleifafræðingar talið að slík tækni hafi komið fram á svæðinu hundruðum árum seinna og mun fundurinn því kollvarpa því sem áður hefur verið talið um Khmer keisaraveldið.

Fundurinn vekur einnig upp nýjar spurningar um hvernig fall keisaraveldisins átti sér stað. Ætla má að frekari rannsóknir á svæðinu muni hjálpa fornleifafræðingum að svar þeim auk þess að varpa ljósi á lifnaðarhætti fólks sem bjó á svæðinu, sem hafa þangað til núna verið gott sem óþekktir.