swimmers-swimming-race-competition-56837

Sundlaugar eru einn stærsti gleðigjafi Íslendinga og gleður einnig margan túristann. Til að viðhalda hreinleika-ímyndinni sem við höfum af sundlaugunum þykir okkur mjög mikilvægt að fólk þvoi sér almennilega áður en farið er ofan í laugina og svo er heiðursmannasamkomulag milli allra þeirra sem nota laugina að í hana eigi ekki að hafa þvaglát.

Þrátt fyrir þetta alþjóðlega heiðursmannasamkomulag, hafa jafnvel atvinnufólk í sundi viðurkennt að þau hafi ekki endilega fyrir því að fara uppúr lauginni til að kasta af sér þvagi. Rannsókn á 31 kanadískri sundlaug leiddi í ljós hversu algengt það er að fólk leyfi sér að pissa í sundlaugar.

Rannsóknarhópurinn mældi styrk sætuefnisins acesulfame potassium í laugunum. Sætuefnið er mikið notað í alls kyns matvöru, brotnar ekki hratt niður og skilar sér út með þvagi eftir að það er innbyrgt. Mælingin leiddi í ljós að í öllum laugunum sem teknar voru yfir í rannsókninni var þvag til staðar. Í sumum tilfellum mældist magn sætuefnisins 570 sinnum meira en í viðmiðunarsýni, sem var kranavatn.

Enginn lauganna sem skoðuð var í rannsókninni var piss-frí þó þvagið væri vissulega í mismiklu magni. Þegar þvag blandast við sundlaugavatn bindast efni úr þvaginu við klórið sem er í vatninu og mynda ýmsar sameindir sem geta verið okkur misskaðlegar. Til að standa straum af þessu hafa sumar þjóðir brugðið á það ráð að auka klórmagnið í vatninu. Það er heldur ekki geðslegt því klór í háum styrk er ekki æskilegur.

Tilgangur rannsóknarinnar var að stórum hluta að vekja notendur sundlauganna til umhugsunar um hversu mikilvægt almennt hreinlæti við sundlaugar er. Við hvetjum því alla lesendur sem stunda það að pissa í laugina að láta af þeim leiða sið og einbeita sér frekar að því að hvetja alla til að þvo sér vel með sápu áður en haldið er ofan í pottana.