Rætkun baktería, söfnun á erfðaefni og raðgreining þess er daglegt brauð fyrir marga sem vinna á rannsóknarstofum. Tilgangurinn með slíkum rannsóknum er yfirleitt að skilgreina hvaða bakteríur eru til staðar á ákveðnum svæðum, en það getur skipt máli að vita slíkt þar sem sjúkdómsvaldandi bakteríur eru til staðar, til að kortleggja vistkerfi eða til að finna bakteríur sem búa yfir hæfileikum sem hægt er að nota í líftækni.

Árið 2016 sagði Hvatinn frá fyrstu raðgreiningunni sem fór fram í geimnum. Það var stórkostlegt afrek að geta raðgreint sýni í þeim aðstæðum sem eru til staðar í geimnum, en þar eru aðstæður um margt ólíkar því sem við venjumst á jörðinni.

Í því tilfelli voru sýnin meðhöndluð og undirbúin á jörðinni, síðan flutt til ISS (The International Space Station) til raðgreiningar í litlu raðgreiningartæki sem kallast MinION. Á haustdögum 2017 gengu vísindahópar NASA svo skrefi lengra þegar þau lögðu í það verkefni að raðgreina bakteríur sem eru nú þegar til staðar útí geimnum, þ.e. í ISS.

Eins og annars staðar þar sem fólk býr og starfar eru bakteríur í ISS. Umhverfissýni voru því tekin víðsvegar um stöðina til að rækta upp bakteríur. Erfðaefni bakteríanna var svo einangrað, magnað og raðgreint um borð í geimstöðinni.

Allar þessar aðgerðir eru daglegt brauð og staðlaðar aðferðir á rannsóknarstofum hér á jörðinni en í geimnum er það mun erfiðara. Með aukinni þekkingu og þróun tækninnar hefur okkur þó verið gert kleift að framkvæma svona tilraunir á stöðum eins og ISS þar sem pláss er takmarkað og þyngdarafls gætir ekki.

Þegar sýnin voru svo flutt til jarðar og meðhöndluð á sama hátt og gert var í geimnum fengust sambærilegar raðgreiningarniðurstöður, sem staðfestir að hægt er að nota þessa tækni til að raðgreina erfðaefni í geimnum. Það eru óneitanlega gleðifréttir að geta framkvæmt slíkar tilraunir í geimnum en það auðvelda vísindahópunum margt.

Þessar rannsóknir eru t.a.m. undirbúningsliður í því að taka sýni á öðrum plánetum þar sem talið er að líf geti leynst. Með þessum aðferðum þarf ekki að senda sýnin til jarðar, sem getur tekið óratíma svo ekki sé minnst á þá hættu sem skapast á því að sýnin skemmist eða verði fyrir einhvers konar hnjaski.

Hér að neðan má sjá myndband sem NASA birti um þennan stórkostlega árangur.