Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

Við höfum mörg hver upplifað það á eigin skinni hversu mikil pressa það er í nútímanum að vera alltaf til taks. Með tilkomu gsm símanna og síðar snjallsímanna varð það einhvern veginn óásættanlegt að ná ekki í einhvern. Krafan er sú að allir eiga að vera tengdir, alltaf. Í flestum hópum samfélagsins gefum við þó afslátt hvað varðar svefntíma, þá er leyfilegt að vera ekki tengdur, en það gildir ekki meðal allra samfélagshópa.

rannsókn þar sem notkun ungmenna á samfélagsmiðlum og líðan þeirra er undir smásjánni sýnir að u.þ.b 20% ungmenna vakna á nóttunni í þeim tilgangi að skoða skilaboð á samfélagsmiðlum. Þriðjungur ungmennanna sem svöruðu spurningalista rannsóknarinnar sögðust vakna a.m.k. eina nótt í viku til að skoða samfélagsmiðla.

Rannsóknin var framkvæmd með spurningalista sem lagður var fyrir 900 nemendur á aldrinum 12-15 ára. Auk þess að svara spurningum um notkun sína á samfélagsmiðlum og svefnhegðun svöruðu þau líka almennum spurningum um líðan sína og félagslíf. Í ljós kom að þeir nemendur sem vöknuðu á næturnar til að skoða samfélagsmiðla leið marktækt verr en þeir sem ekki vöknuðu. Að sama skapi voru þau marktækt þreyttari yfir daginn eins og gefur að skilja þegar fólk er að rjúfa nætursvefninn fyrir símann sinn.

Með tilkomu allra samfélagsmiðlanna sem okkur býðst í dag verður erfiðara og erfiðara að vera unglingur í þessum ruglaða heimi. Streitan sem fylgir því að finna sig knúinn til að vera stanslaust með á nótunum kemur í veg fyrir að unga fólkið okkar fái almennilega hvíld. Hvíldin er svo sannarlega nauðsynleg, ekki bara fyrir allan þroska heldur einnig til að líkaminn okkar sé starfhæfur fyrir daglegt líf.

Þessar niðurstöður segja okkur enn og aftur að við verðum að læra að skammta okkur skjátíma og hjálpa börnum og unglingum að temja sér að takmarka umgengni um samfélagsmiðlana.