comf_high_heels

Hlutverk hárra hæla er að fegra útlit og stíl þess sem í þeim gengur. Þeir eru sannarlega fallegir, flestir að minnsta kosti, og gefa ákveðið eftirsótt yfirbragð en allir sem hafa gengið einhvern spöl í háum hælum vita að það getur verið erfitt og vont. Nú hafa vísindamenn lagt krafta sína saman í að gera upplifun þeirra sem kjósa að ganga um í háum hælum bærilegri eða réttara sagt sársaukalausa.

Hópnum var smalað saman af Dolly Singh en hún stofnaði einnig fyrirtækið Thesis Couture í kringum hugmyndina. Að hugmyndinni, framkvæmdinni og hönnuninni koma alls kyns sérfræðingar m.a. verkfræðingur og bæklunarlæknir.

Skórnir eru með 7,6 cm háum hæl en hönnun hans gerir það að verkum að þeir sem ganga á þeim munu ekki upplifa það að ganga á hælum, þó skórnir verði sennilega aldrei á pari við íþróttaskó. Til að koma því við er burðargrind skósins, eða botninn, gerður úr sterku en mjög sveigjanlegu plasti sem gefur eftir á þann hátt að þungi þess sem gengur í skónum færist milli tábergs og hæls eftir því hvar viðkomandi er staddur í skrefinu. Að auki er skórinn klæddur með nokkurs konar frauði sem gerir hann mýkri á alla kanta.

Þegar skórnir koma á markað munu þeir kosta um 140 þúsund íslenskar krónur, sem ansi há upphæð fyrir skó. En Singh og hópurinn hennar gera þetta af hugsjón og ætla innan 5 ára að opna aðgang að tækninni. Takmarkið er að allir geti gengið í flottum hælum án þess að eyðileggja stoðkerfið og fæturna.

Hér má lesa umfjöllun The Independent um skóna.