Við könnumst mörg við það að verða sybbin um miðjan daginn, oft skömmu eftir hádegið. Víða í heiminum er þetta svo viðurkennt fyrirbæri að nær allir í samfélaginu fá sér síðdegisblund um þetta leiti.

Slíkt hefur forfeðrum okkar Íslendinga líklega ekki þótt mjög hagstætt. Enda ómögulegt að eyða þeim örfáu birtustundum sem við fáum hér á veturnar í að sofa.

Síðdegisblundur er þó alls ekki alltaf slæm hugmynd, og raunar mjög góð hugmynd ef marka má rannsókn sem grískur rannsóknarhópur mun kynna á ráðstefnu ACC (American College of Cardiolgy) í næstu viku.

Samkvæmt þeim niðurstöðum sem teknar eru saman í ágripinu fyrir ráðstefnuna getur síðdegisblundur lækkað blóðþrýsting marktækt um 3 – 5 mm Hg. Slík lækkun er í sumum tilfellum það sem lyfjameðferð skilar fólki sem greinist með of háan blóðþrýsting, svo það munar um minna.

Alls tóku 212 sjálfboðaliðar þátt í rannsókninni. Þeim var skipt í tvo sambærilega hópa, annar hópurinn tók sér síðdegisblund meðan hinn hópurinn var notaður sem viðmiðunarhópur til að skoða hvort blundurinn hefði áhrif á líðan þátttakenda.

Sjálboðaliðarnir svöruðu löngum spurningalista um heilsu sína og líðan ásamt því að skilgreina lífstíl sinn, matarræði og hreyfingu fyrir rannsakendum. Til að fylgjast með blóðþrýstingi þátttakenda voru þeir látnir ganga með sírita, svo mælingin var ekki einungis tekin einu sinni á dag heldur með reglulegu millibili.

Helstu niðurstöðurnar voru sem fyrr segir að síðdegisblundur, sem varði að meðaltali í 50 mínútur lækkaði blóðþrýsting þátttakenda. Munurinn á hópunum var marktækur um að meðaltali 3-5 mm Hg.

Enn á eftir að staðfesta niðurstöðurnar með því að endurtaka rannsóknina í nýjum og jafnvel stærri hópi. Þangað til, getur varla skaðað að leggja sig í um það bil hálftíma á dag, hafi maður á annað borð tækifæri til þess.