Mynd: Event Rebels
Mynd: Event Rebels

Sjálfboðaliðastörf verða sennilega aldrei alveg metin að verðleikum en mörg slík störf skapa grunn að hjálparstarfi víðs vegar um heiminn. Sjálfboðaliðastörfin eru ólaunuð, þó í sumum tilfellum fá sjálfboðaliðar frían mat eða húsakost þar sem starfinu er haldið úti.

Þrátt fyrir launaleysið eru störfin oft gefandi fyrir sálartetrið, en manni hlýtur að líða vel meðan maður lætur gott af sér leiða. Upplífgun andans er þó ekki eina jákvæða hlið starfa fyrir sjálfboðaliða, en ný rannsókn sýnir að þeir sem stunda sjálfboðaliðastörf eru almennt við betri heilsu en þeir sem gera það ekki.

Í rannsókninni sem var framkvæmd við Ghent University, var notast við gögn um 40þúsund einstaklinga frá 29 löndum sem hafði þegar verið safnað í gegnum European Social Survey (ESS). ESS er söfnun upplýsinga um þjóðir innan Evrópu. Tilgangur söfnunarinnar er að skoða breytingar í samfélagsbyggingu landanna. Í spurningalistunum er farið yfir ýmis málefni svo sem trúarskoðanir lífshætti og tekjur, svo eitthvað sé nefnt. Þegar fólk sem stundar sjálfboðaliðastörf var skoðað í samanburði við þá sem ekki stunduðu slík störf kom í ljós að sjálfboðaliðar voru almennt við betri heilsu en aðrir.

Ýmsar skýringar geta legið að baki þessum niðurstöðum. Sem dæmi má nefna að þeir sem bjóða sig fram sem sjálfboðaliðar hafa oft meiri fjármuni á milli handanna, en það hefur einnig verið tengt við betri heilsu. Það er þó mögulega ekki eina skýringin.

Í fyrsta lagi má gera að því skóna, eins og áður hefur komið fram, að óeigingjörn störf gætu losað um ýmis vellíðunarhormón. Það leiðir ekki bara af sér betri líðan á því augnarbliki heldur getur losun þessara hormóna stuðlað að líkamlega betri heilsu. Að auki geta þættir sem notaðir eru til að undirbúa fólk fyrir sjálfboðaliðastörf, eins og styrking sjálfsmyndar eða félagsfræðileg fræðsla hjálpað fólki í daglegu lífi líka.

Það má því segja að ýmislegt sé á því að græða að minnka sjálfselskuna og gefa af sér til þeirra sem minna mega sín.