Mynd: Bianca Chadda
Mynd: Bianca Chadda

Sjálfa eða selfie er það kallað þegar einstaklingur tekur mynd af sjálfum sér. Með nútímatækni, eins og snjallsímum verða sjálfur mun auðveldari í framkvæmd en þær voru fyrir ekkert svo löngu síðan þegar einungis var auga öðru meginn á myndavélinni. Sjálfur er þó ekki með öllu hættulausar en ný samantekt leiðir í ljós að fleiri deyja vegna sjálfsmynda en vegna hákarlaárása.

Samantektin var birt á vefritinu Mashable og sýnir hún að það sem af er ári hafa átta manns dáið eftir hákarlaárás en 12 manns, þriðjungi meira, hafa dáið við að taka sjálfu.

Þó sjálfurnar séu hér teknar út fyrir sviga þá verður að viðurkennast að það er ekki endilega myndatökunni að kenna að slysin eiga sér stað. Mörg slysanna verða reyndar vegna þess að myndasmiðurinn er svo upptekinn af því að smella af. að viðkomandi gleymir að vara sig á bílum eða frá falli. Það eru þó einnig til nokkrar sjálfur sem hafa leitt til dauða ljósmyndaranna og má þá eiginlega eingöngu skrifa slysið á klaufaskap eða kannski almennt óskynsamlega hegðun, eins og konan sem tók af sér sjálfu þar sem hún beindi byssu að höfði sínu.

Samantekt Mashable segir okkur að þrátt fyrir alla tæknina sem við höfum aðgang að í dag þá er samt sem áður eitt sem við verðum öll að búa yfir og er ekki hægt að bæta við símann sem app, það er almennn skynsemi. Gleymum ekki að taka hana með hvert sem við förum og jafnvel nota hana líka endrum og eins.